Eftir að Femínistafélag grunnskólans í Hveragerði hóf að safna tíðavörum fyrir nemendur ákvað bæjarstjórnin að gera þær ókeypis í skólanum og félagsmiðstöðinni næsta haust. Femínistafélagið mun sjá um að velja vörurnar og dreifa þeim í skólanum.

„Þetta á að vera svo sjálfsagt. Fyrir stelpur er þetta jafn mikilvægt og klósettpappír. Með því að hafa þetta í boði gerum við blæðingar minna tabú. Stelpur eiga ekki að þurfa að fela dömubindin í vasanum á leiðinni inn á klósett,“ segir Rannveig Arna Sigurjónsdóttir sem var að klára 10. bekk. „Síðan eru til stelpur sem hafa einfaldlega ekki efni á góðum dömubindum.“

Mikil umræða hefur verið um kostnað við tíðavörur, það er dömubindi og túrtappa, fyrir ungar stúlkur undanfarið ár. Sérstaklega eftir að breytingartillaga þingmannsins Andrésar Inga Jónssonar við fjárlög, til að gera tíðavörur í skólum og fyrir tekjulága, var felld í desember.

Femínistafélagið var stofnað árið 2017 af þremur stúlkum í 10. bekk. Hlutverk þess er að styðja við jafnrétti í skólanum og er það opið fyrir alla. Ákveðið var að safna tíðavörum til að hafa ókeypis í skólanum og fékk félagið styrk til þess.

Sigrún Árnadóttir, kennari í skólanum og fulltrúi Okkar Hveragerðis í bæjarstjórn, fannst framtakið gott og ákvað að taka málið upp hjá bænum. Var á fimmtudag samþykkt á bæjarstjórnarfundi að bærinn greiði fyrir tíðavörurnar og að Femínistafélagið muni koma að vali og dreifingu. Bætist Hveragerði því við hóp sveitarfélaga eins og Reykjavíkur, Ísafjarðar og Skagafjarðar, þar sem tíðavörur verða ókeypis í skólum og félagsmiðstöðvum.

„Það er mikilvægt að allar stúlkur hafi aðgang að góðum tíðavörum,“ segir Sigrún. „Félagið hafði safnað og fengið gefins stór bindi, sem henta ekki endilega fyrir ungar stelpur. Strax í haust mun skólinn panta inn vörur sem henta, í samráði við Femínistafélagið.“

Rannveig segist rosalega ánægð með að bæjarstjórn hafi ákveðið að hafa ókeypis tíðavörur í skólanum. „Mér finnst þetta geggjað. Ég vona að þetta verði svona í öllum skólum í framtíðinni,“ segir Rannveig sem sjálf fer í framhaldsskóla í haust. „Ef dömubindi verða ekki boði þar læt ég í mér heyra,“ segir hún.