Einar Ómarsson, grunnskólakennari, sótti nýlega námskeið hjá Stígamótum um kynferðisofbeldi gegn konum með áherslu á hvað karlar geta gert til að berjast gegn því. 

Hann segir að námskeiðið hafi nýst honum vel og að margt hafi komið fram sem nýtist honum í starfi og einfaldlega í lífi hans. Hann segir stærstu spurninga sem eftir situr snúast um mörk og ólíka upplifun fólks á þeim. Það þurfi að fræða börn og fullorðna betur.

Einar er grunnskólakennari og hefur síðastliðin átta ár kennt í Barnaskóla Hjallastefnunnar í Reykjavík. Hann segir að bæði starf hans og almenn forvitni um hvað er í gangi á Stígamótum hafi verið einn helsti hvati þess að hann ákvað að fara á námskeiðið.

Einar segir að hann hafi frá því hann var unglingur upplifað mikla breytingar á sínum viðhorfum, þá kannski sérstaklega eftir að hann hóf kennaranámið og fór síðar að kenna börnum.

„Ég fór að vinna með börnum og unglingum. Hef verið að kenna í átta ár og er að vinna hjá Hjallastefnunni sem er kynjaskipt skólastarf. Þar reynum við að mýkja drengina og styrkja stúlkurnar,“ segir Einar.

Hvernig geta karlmenn gert til að styðja við konur?

Hann segir að undanfarin ár hafi það verið mikið í umræðunni hvað karlmenn geti gert til að styðja við konur sem beittar hafa verið kynferðislegu ofbeldi.  

„Það sem kom fram á námskeiðinu er að margir af þeim karlmönnum sem eru kærðir fyrir nauðgun, þeir gera sér ekki grein fyrir því að þeir séu að fara yfir mörk. Þeir halda að þeir megi þetta og þeir séu ekki að gera neitt rangt. Þá veltir maður því fyrir sér hvernig við getum breytt því. Að menn haldi ekki að þegar þeir fari í partý sé það eðlilegt að þeir fari fjórir saman með einni stelpu inn í herbergi,“ segir Einar.

Hann segir að menn séu ekkert endilega siðblindir og fari ekki út með það markmið að nauðga. Heldur einfaldlega haldi að það sem þeir geri sé í lagi, því þeir viti ekki betur.

„Þeir halda að þetta sé í lagi því þeir fá ekki að vita neins staðar að þetta sé ekki í lagi. Hvað getum við gert fyrir þessa karlmenn? Þeir þekkja ekki mörkin og enda á því að ganga fram af konunni og hún upplifir að það sé brotið á sér. Hvernig getum við hjálpað þeim einhvern veginn að þekkja mörkin?,“ segir Einar.

Hann tekur dæmi um ásakanir Ford gegn Kavanaugh sem mikið var fjallað um í tilefni af tilnefningu Kavanaugh til hæstaréttardómara í Bandaríkjunum.

„Hann upplifði það ekki að hann hafi gert neitt rangt, en hún gerði það. Hvernig getum við komið honum í skilning um að það er eitthvað skrítið,“ segir Einar.

Fræðsla lykilatriði

Hann segir að enginn hafi verið með svörin við þeirri spurningu á námskeiðunu en telur sjálfur að lykillinn að því að finna svarið sé aukin fræðsla og best sé að byrja slíka fræðslu snemma. 

„Við erum með skólaskyldu í tíu ár. Af hverju erum við ekki að nýta það tækifæri?“, segir Einar

Hann segir að hann leggi mikla áherslu á það í sinni kennslu hvernig eigi að koma fram við annað fólk „Ef ég skila börnunum með þokkalega góða siðferðiskennd út í samfélagið, þá finnst mér það gera meira en kannski algebra,“ segir Einar.

Einar segir að hann ræði þessi mál við vini sína og það sé alltaf að aukast þekking meðal karlmanna um þessi málefni. En samt hafi margt komið fram á námskeiðinu sem hafi verið honum áfall. 

„Það sem mér fannst mest „sjokkerandi“ á námskeiðinu er hvað mikið af brotunum eru framin á börnum og unglingum. Það er sláandi. Fólk er að leita sér aðstoðar á þrítugs-, fertugs- eða fimmtugsaldri vegna einhvers sem gerðist þegar þau voru unglingar,“ segir Einar.

Fjölbreytttur hópur sem sótti námskeiðið

Einar segir að hópurinn sem sótti námskeiðið hafi verið fjölbreyttur og þar hafi verið allur skalinn, eins og lögreglumaður, menn utan af landi.

„Það var alveg einn sem sagði að námskeiðið hafi breytt honum. Hann vissi ekki mikið áður en hann kom á námskeiðið. Eftir námskeiðið höfðu viðhorf hans alveg breyst,“ segir Einar og leggur að lokum áherslu á að til að taka þátt í námskeiðinu sé alls ekki nauðsynlegt að hafa kynnt sér málin áður.

Fóru að hugsa um að halda námskeið eftir #metoo

Námskeiðið var fyrst haldið í febrúar, en næstu helgi verður það haldið aftur.

„Við erum búin að vera að pæla í þessari hugmynd lengi á Stígamótum og svo eftir #metoo byltinguna í nóvember fyrir ári síðan þá var meira áberandi hversu mikið var talað um hvað karlar geti gert í baráttunni. Hvert þeirra hlutverk er í framhaldi af því og þessari umræðu almennt,“ segir Hjálmar Gunnar Sigmarsson, ráðgjafi hjá Stígamótum, sem heldur utan um námskeiðið.

Hann segir að á Stígamótum hafi verið rætt um hlutverk karla í mörg ár og að þeim hafi því fundist tilvalið að nýta reynslu sína til að bjóða upp á námskeið fyrir karlmenn sem hafa áhuga á að kynna sér málið betur og læra meira.

Fyrsta námskeiðið, líkt og kom fram áður, var haldið í febrúar síðastliðnum. Hjálmar segir að skýrasta niðurstaða síðasta námskeiðs hafi verið hversu mikilvægt aðgengi að upplýsingum og verkfærum sé fyrir karlmenn sem vilja taka þátt.

„Það sem kom skýrt fram á námskeiðinu síðast er að þeim fannst öllum mikilvægt að upplýsingar væru aðgengilegar, en líka þörf á praktískum verkfærum til að ræða þetta við aðra menn sem eru kannski ekki endilega á þessum stað,“ segir Hjálmar.

Vilja bjóða karlmönnum sem upplifa sig einangraða frá umræðunni

„Okkur langaði að prófa þetta aftur og bjóða mönnum að koma sem eru ekki endilega hluti af samfélagi eða starfshópi sem er að skoða þetta og upplifa sig kannski einangraða í umræðunni. Okkur finnst spennandi að ná til manna sem eru ekki endilega hluti af umræðunni en hafa áhuga á því,“ segir Hjálmar og bætir við að engin skilyrði séu sett fyrir þekkingu á málefninu áður en það er sótt.

„Hver sem bakgrunnur þeirra er, hvaðan sem þeir koma og hvernig þeir koma inn í femínismann eða ekki, þá vildum við bjóða þeim þetta tækifæri til að fá fræðslu frá okkur. Þar sem við miðlum reynslu okkar af því að vinna með brotaþolum öll þessi ár. Þannig fær brotaþolavæni vinkillinn skýra kynningu,“ segir Hjálmar.

Hann segir að ofbeldi sé þannig sett í samhengi við femíniska umræðu, fjölbreyttar birtingarmyndir kynferðisofbeldis, afleiðingar kynferðisofbeldis, brotaþolavæna umræðu, reynsluheim kvenna, kynjamisrétti, klám, nauðgunarmenningu, skaðlega karlmennsku, forréttindi karla og umræðuna um ofbeldismenn. 

„Síðan í leiðinni bjóðum við upp á tækifæri að ræða saman. Þeir voru um tólf sem sóttu námskeiðið síðast í febrúar og við sáum að mesta gróskan var eflaust þar. Þegar þeir fengu tækifæri til að ræða saman og höfðu okkur með til að gefa þeim „feedback“ og leiðbeina þeim í umræðunni. Þeir að deildu sínum sögum og hvernig þeir hafa verið að takast á við þessa hluti. Hvað þeir hafa lært í þessari umræðu og baráttunni. Það fóru af stað mjög fjölbreyttar umræður. Það var mjög skemmtileg blanda,“ segir Hjálmar.

Áherslan á námskeiðinu verður að sögn Hjálmars á uppbyggilegar umræður með það að leiðarljósi að skoða hvað karlmenn geta gert í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi. Dagskráin verður fjölbreytt með margskonar fyrirlestrum, hugarflæðisvinnu, heimildamyndum, æfingum og umræðum.

Námskeiðið er fyrir alla karlmenn 18 ára og eldri og er þátttökugjald þúsund krónur. Nánari upplýsingar um námskeiðið er hægt að nálgast hér.