Sameiginleg aðgerð Lögreglunnar á Vesturlandi og Matvælastofnunnar stendur nú yfir í Borgarfirði. Snúast þær um að fjarlægja nautgripi úr haldi eigenda en mikið hefur verið rætt um slæman aðbúnað dýranna undanfarið.

Hrönn Ólína Jörundsdóttir, forstjóri MAST staðfesti að aðgerðin væri nú í gangi og að mögulega gæti hún tekið nokkra daga. Hún hafi þó ekki viljað lýsa aðgerðinni í of miklum smáatriðum. Hún staðfestir þó að líklegt sé að einhver dýranna komi til með að vera aflífuð.

„Við höfum ekki viljað tjá okkur mikið um smáatriði aðgerðarinnar. Við höfum reynt að koma því á framfæri að við erum með aðgerð í gangi og erum búin að vera með hana í gangi í þónokkurn tíma,“ segir Hrönn en Mast hefur legið undir talsverðri gagnrýni fyrir það sem talið var aðgerðaleysi af hálfu stofnunarinnar.

Hrönn segir að ástæðan fyrir því að MAST hafi ekki viljað tjá sig mikið um aðgerðina sé að erfitt sé fyrir stofnunina að athafna sig ef of margir séu viðriðnir aðgerðina. „Það er erfitt að athafna sig með almenning og fjölmiðla á staðnum,“ segir hún og tekur fram að MAST muni senda út yfirlýsingu eftir að aðgerðinni er lokið.

Aflífun veltur á ástandi dýranna.

Aðspurð um það hvort dýrin verði aflífuð í framhaldi aðgerðanna segir Hrönn að það velti á mati á ástandi þeirra.

„Það eru skoðaðar leiðir til að dýr getu verið seld til lífs,“ segir Hrönn en til þess þurfi „ Ef dýr eru í góðu ásigkomulagi þá erum við að leita leiða með eigandanum að koma þeim fyrir. En sjálfssagt verður einhver hluti dýranna aflífaður,“ segir Hrönn.

„Spurningin er hvort það takist að selja þau. Það er ekkert alltaf möguleiki,“ segir Hrönn en stundum sé einfaldlega erfitt að finna kaupendur. „Hvort aðrir bændur sjái til dæmi verðmæti í nautum. Það er ekkert alltaf til staðar. Svo það eru allskonar svona praktísk atriði sem hafa þau áhrif að það tekst ekki að selja öll dýr í svona aðgerðum,“ segir hún.

Aðspurð um það hvort einhver takmörk séu fyrir því hverjir mega bjóða í dýrin segir hún að aðstaða og geta til móttöku sem mikilvægt atriði. „Það er aðallega hvort aðilinn sem er að taka á móti dýrunum hafi aðstæður og getu til þess að hýsa þau. Ef dýr eru í góðu standi þá teljum við siðferðislega rétt að selja dýr. En ef dýr eru ekki í góðu standi þá þurfum við að skoða það,“ segir Hrönn.

Myndin sýinr aðgerðir lögreglu og MAST í gær
Mynd/SteinunnÁrnadóttir

Aðgerðir hófust um helgina

Steinunn Árnadóttir organisti varð vitni að því í gær að farið var í aðgerðina og vakti athygli á því á Facebook síðu sinni en Steinunn hefur unnið mikið starf í að vekja athygli á aðbúnaði dýranna.

„Viðkomandi aðili var vörslusviptur núna á laugardaginn og þá greip MAST inn í. Eftir aðgerð á laugardeginum þá hafði hann ekki umsjón lengur með þessar skepnur.“ Segir Steinunn en eftir að skepnunum hafði verið gefið nýtt fóður um helgina var hafist handa við að fjarlægja skepnurnar strax á mánudeginum. „Þetta tekur eflaust nokkra daga þar sem fjarlægja þarf mikinn fjölda af dýrum,“ segir Steinunn.