Laugar­dals­höllin mun opna dyr sínar á nýjan leik síðar í mánuðinum fyrir bólu­setningar en síðasti dagur bólu­setninga í Höllinni fyrir sumar­frí var 15. júlí síðast­liðinn. Ragn­heiður Ósk Er­lends­dóttir, fram­kvæmda­stjóri hjúkrunar hjá Heilsu­gæslunni stað­festir í sam­tali við RÚV að byrjað verði að bólu­setja aftur í Höllinni þann 16. ágúst.

„Í næstu viku tökum við for­gangs­hópa sem eru kennarar og starfs­fólk Land­spítala sem eru að taka þennan örvunar­skammt á Jans­sen. Svo munum við keyra upp Laugar­dals­höllina 16.- 19. ágúst,“ sagði Ragn­heiður í sam­tali við RÚV en fyrstu fjóru daganna er gert ráð fyrir 32 þúsund manns í bólu­setningu.

Allir þeir sem fengu bólu­efni Jans­sen og eru ekki með sögu um Co­vid geta fengið örvunar­skammt, ýmist með bólu­efni Pfizer eða bólu­efni Moderna. Í síðustu viku var byrjað að bólu­setja skóla­starfs­fólk svo það gæti náð fram fullri virkni áður en skólarnir byrja í lok mánaðar.

Þá er einnig búið að á­kveða hvernig bólu­setningum barna frá 12 til 15 ára verður háttað en þau munu mæta í Höllina viku eftir þeim sem fara í örvunar­skammt vegna Jans­sen, eða 24. og 25. ágúst. Um er að ræða um það bil 15 til 20 þúsund börn en ekki er boðað sér­stak­lega í bólu­setninguna heldur þurfa börn að mæta á­samt for­eldrum sínum á til­skildum tímum.

Kamilla Sig­ríður Jósefs­dóttir, stað­gengill sótt­varna­læknis, greindi frá því í sam­tali við Frétta­blaðið í vikunni að það væri einnig til skoðunar að gefa þriðja skammtinn af bólu­efni, þá hjá þeim sem fengu önnur bólu­efni en Jans­sen. Ljóst er þó að ekki sé til nógu margir skammtar til að bjóða öllum í þriðja skammtinn.

„Fyrir hópana sem við erum hræddust um, fyrir hópana sem eru elstir, fyrir þá sem eru með mikla ó­næmis­bælingu, fyrir þá sem að eru með á­kveðna sjúk­dóma eða eru í störfum þar sem er aukin hætta á smiti, þetta eru hóparnir sem við erum að horfa á að reyna að koma sem fyrst í örvunar­skammta,“ sagði Kamilla.

Þá sagði hún ó­lík­legt að allir myndu fá örvunar­skammt en það muni skýrast frekar á næstu mánuðum þegar fram­boð á bólu­efnum liggur fyrir. „Við getum í rauninni ekki al­menni­lega vitað hvað við eigum mikið af skömmtum til að nota í á­kveðin verk­efni fyrr en það grynnkar að­eins á þeim verk­efnum sem við stöndum frammi fyrir núna.“