Sveitarstjórn Bláskógabyggðar hefur samþykkt tillögu um að gera allt að 800 fermetra íshelli í suðurhlíð Langjökuls. Á sveitastjórnarfundi í gær var lögð fram tillaga að aðalskipulagsbreytingu vegna íshellis í suðurhlíðinni. Innan tillögunnar er gert ráð fyrir þeim möguleika að gera manngerðan íshelli sem viðkomustað fyrir ferðamenn sem gæti orðið allt að 800 fermetrar að stærð. Ekki er gert ráð fyrir varanlegum mannvirkjum innan svæðisins.

Samkvæmt skýrslu Eflu hafa tvö ferðaþjónustufyrirtæki, Straumhvarf ehf. og Skálpi ehf., óskað eftir að fá lóðir fyrir manngerða íshella. Svæðið sem Straumhvarf óskar eftir er í um 900 metra hæð yfir sjó, í suðurhlíðum Langjökuls, nálægt innstu Jarlhettu.

Jarlhettur eru hverfisverndaðar og er fyrirhugaður íshellir utan þess. Svæðið sem Skálpi óskar eftir er í um 600 metra hæð yfir sjó, neðarlega á Suðurjökli.

„Uppbygging íshella eykur fjölbreytni í ferðaþjónustu og er í sátt við umhverfið og er afturkræf framkvæmd. Með framkvæmdunum er hægt að tryggja ferðir á jökulinn með áhugaverðum áfangastað allt árið um kring,“ segir í skýrslunni. Ekki kemur fram í fundargerð Bláskógabyggðar hvort fyrirtækið það var sem fékk samþykki.