Athygli vekur að í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru villur í skráningu tilboða í svokallaðri tilboðsbók. Við greiningu Ríkisendurskoðunar á umræddu skjali komu í ljós annmarkar í útreikningum þar sem fjöldi færslna í skjalinu var ekki færður inn á réttu formi.
Sumir starfsmenn notuðust við erlenda kommusetningu, aðrir notuðu punkt og sumir skrifuðu hreinlega tilboðið með bókstöfum.
Um var að ræða tilboð sem námu samtals um 20 milljörðum króna.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segir í samtali við Fréttablaðið að tilboðsbókin hafi verið unnin af söluráðgjöfum Bankasýslunnar og Bankasýslan verði að svara fyrir hana. „Ég hef ekki séð upplýsingar um að þessir misbrestir hafi leitt til teljandi tjóns fyrir ríkissjóð, en við hljótum engu að síður að gera kröfu um vönduð vinnubrögð – sérstaklega þegar sýslað er með ríkiseignir. Aðilar sem treyst er fyrir slíku verki verða að standa undir því trausti,“ segir Bjarni.
Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir að Íslandsbanki hafi sent sniðmát í Excel til innlendra söluráðgjafa og söluaðila Bankasýslunnar með leiðbeiningum um hvernig ætti að fylla það út svo að bankinn hefði yfirsýn um þróun eftirspurnar innlendra fjárfesta.
Annar hugbúnaður eða sérhannað upplýsingakerfi til að halda utan um tilboð í tilboðsfyrirkomulagi var ekki til staðar hjá bankanum.
Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, var ekki búinn að svara fyrirspurn Fréttablaðsins þegar blaðið fór í prentun í gær.