VR og LÍV krefjast að­komu stjórn­valda að kjara­samninga­við­ræðum, að vinnu­vika sé stytt enn frekar og að upp­sagnar­frestur verðu lengdur fyrir eldri starfs­menn fyrir­tækja.

Þetta, meðal annars, kemur fram í sam­eigin­legri kröfu­gerð frá VR og Lands­sam­bandi ís­lenskra verslunar­manna (LÍV) sem send var til Samtaka atvinnulífsins (SA) í dag.

Kjara­samningur á milli VR og LÍV annars vegar og SA hins vegar rennur út þann 1. nóvember næst­komandi.

Fjögurra daga vinnu­vika

Vinnu­vikan var stytt úr 40 tímum niður í 36 tíma árið 2019 og segir í kröfu­gerðinni að styttingin hafi tekist vel og að al­menn á­nægja hafi verið með hana á meðal fé­lags­fólks.

VR og LÍV vilja að vinnu­vika sé stytt niður í fjóra daga, eða það sem sam­svarar 32 stundum á viku. Þau vilja að það sé gert án skerðingar á launum.

„Vinnu­tími á Ís­landi er einna lengstur af þeim löndum sem við berum okkur saman við og má sjá af­leiðingarnar í fjölgun launa­fólks síðustu ár sem sækir þjónustu til sjúkra­sjóða stéttar­fé­laganna,“ segir í kröfu­gerðinni.

Vilja fjölga frí­dögum

VR og LÍV gera kröfu um aukinn frí­tíma og meiri sveigjan­leika í or­lofs­töku. Fé­lögin gera þá kröfu að allt fé­lags­fólk eigi rétt til 30 or­lofs­daga á hverju ári en sam­kvæmt kjara­samningum er lág­marks­or­lof 24 dagar en allt að 30 dagar eftir tíu ár hjá sama fyrir­tæki.

Þá er einnig krafist þess að or­lofs­réttur verði rýmkaður þannig að or­lofs­nýting sé allt að tvö ár í senn. „Ef ekki verður við því komið að nýta or­lofið innan þess tíma, verði ó­nýtt or­lof gert upp við starfs­fólk áður en nýtt tíma­bil hefst,“ segir í kröfu­gerðinni.

Krefjast að­komu stjórn­valda

„Að­koma stjórn­valda að kjara­samningum á al­mennum vinnu­markaði er ó­hjá­kvæmi­leg,“ segir í kröfu­gerðinni. Þá segir að til að skila þeim á­vinningi sem vonast er eftir sé nauð­syn­legt að stjórn­völd komi að borðinu.

Krafist er þess að þak verði sett á leigu, ungu fólki verði auð­velduð fyrstu kaup með auknum stuðningi frá hinu opin­bera og lóða­fram­boð verði aukið veru­lega með að­komu sveitar­fé­laga.

„Fram­boð hús­næðis, hvort heldur er til eignar eða leigu, er í sam­ræmi við eftir­spurn og fáir sem geta komið sér þaki yfir höfuðið.“

Krefjast breytingu á upp­sagnar­rétti

„Tryggja þarf starfs­fólki sem hefur langan starfs­aldur hjá sama at­vinnu­rekanda lengri upp­sagnar­frest, óháð líf­aldri. Réttur þessi komi fram til við­bótar þeim rétti sem nú þegar er í kjara­samningi,“ segir í kröfu­gerðinni.

Þau vilja að upp­sagnar­frestur sé fjórir mánuðir eftir 10 ár hjá sama at­vinnu­rekanda, fimm mánuðir eftir 15 ár hjá sama at­vinnu­rekanda og sex mánuðir eftir 20 ár hjá sama at­vinnu­rekanda.

Þá gera þau hins vegar kröfu um að starfs­maður geti sagt upp sínu starfi með þriggja mánaða fyrir­vara.

Breyting á skil­greiningu frí­daga

Einnig er krafist þess að 1. maí verði skil­greindur sem stór­há­tíðar­dagur, að­fanga­dagur og gaml­árs­dagur verði stór­há­tíðar­dagur allan daginn en ekki bara frá klukkan 12.

Lesa má kröfugerð VR og LÍV í heild sinni með því að smella hér.