Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir, dóms­mála­ráð­herra, Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttir, ný­sköpunar­ráð­herra og Bjarni Bene­dikts­son, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra hafa lagt fram minnis­blað fyrir ríkis­stjórn um að­gerðir til þess að gera er­lendum ríkis­borgurum sem eru utan EES kleift að dvelja á Ís­landi í allt að sex mánuði og stunda vinnu sína hjá er­lendum fyrir­tækjum í fjar­vinnu.

Með breytingunni verður þeim ríkis­borgurum, sem eru undan­þegnir á­ritunar­skyldu, heimilt að sækja um lang­tíma­vega­bréfs­á­ritun á Ís­landi fyrir starfs­menn í fjar­vinnu og fjöl­skyldur þeirra án þess að þurfa að flytja lög­heimili til landsins eða fá kenni­tölur.

„Í kjöl­far CO­VID-19 far­aldursins hafa fjölda­mörg fyrir­tæki á heims­vísu opnað á fjar­vinnu sem áður studdu ekki við það. Það er stór breyting og starfs­fólk sem getur unnið fjar­vinnu um allan heim er byrjað að líta í kringum sig að öðrum dvalar­stað, þar sem þau þurfa ekki að hafa bú­setu á sama stað og þau starfa,“ segir í frétta­til­kynningu á vef stjórnar­ráðsins.

Unnið áfram í að bjóða upp á enn lengri dvöl

Að frum­kvæði ný­sköpunar­ráð­herra hefur undan­farna mánuði verið unnið að því að út­færa heimild fyrir ein­stak­linga sem eru í föstu ráðningar­sam­bandi við er­lend fyrir­tæki að dvelja og starfa hér á landi í sex mánuði.

Fram til þessa hefur að­eins verið hægt að dvelja hér á landi í 90 daga við slíkar að­stæður. Til að fá heimild fyrir lengri dvöl þarf við­komandi að sýna fram á ráðningar­sam­band, tekjur og sjúkra­tryggingar. Á­fram verður unnið að því að skoða fram­kvæmdina til að hægt verði að bjóða upp á dvöl til enn lengri tíma.

Ekki þörf á lagabreytingum

„Til að byggja upp út­flutnings­greinar byggðar á hug­viti þurfum við að búa til um­hverfi, suðu­pott fólks með hug­myndir og hæfni sem kynnist, lærir af hvert öðru, og býr til tæki­færi fram­tíðarinnar. Með því að opna nú fyrir og auð­velda starfs­fólki að vinna frá Ís­landi, bætum við þekkingu og tengingum inn í ís­lenska um­hverfið,“ segir Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dóttir, ferða­mála-, iðnaðar- og ný­sköpunar­ráð­herra í frétta­til­kynningunni.

Breytingin sem gerð er í dag kallar ekki á laga­breytingar, en dóms­mála­ráð­herra og fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, undir­rituðu í dag breytingar á reglu­gerðum um út­lendinga og reglu­gerð á tekju­skatti og fasta starfstöð.

Ís­lands­stofa mun halda utan um upp­lýsinga­gjöf og kynningar­starf að­gerðarinnar.