Olíufélagið Olís og skyndibitakeðjan Domino‘s eru á meðal þeirra fyrirtækja sem hafa notið hvað mest góðs af Ferðagjöf stjórnvalda.

Þetta má lesa úr tölum um nýtingu Ferðagjafarinnar en samkvæmt þeim raða fyrirtækin sér í sjötta og sjöunda sæti yfir þau sem hafa fengið hæstu fjárhæðirnar. Hefur hvort þeirra fengið um 3 milljónir króna í sinn hlut.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir það ekki koma sér á óvart að hluti Ferðagjafarinnar fari til skyndibitastaða og olíufélaga.

Úrræðið hafi verið sett upp með þeim hætti að það einskorðist við fyrirtæki með tiltekin starfsleyfi og því eðlilegt að eitthvað fari til fyrirtækja með starfsemi sem ekki teljist til hefðbundinnar ferðaþjónustu.

Mest farið til gististaða

„Það lá alltaf fyrir að hluti myndi fara í veitingaþjónustu og svo eru bensínstöðvarnar með veitingaþjónustu og annað um allt land. Fólk á ferðalagi nýtir sér það líka svo við teljum það bara vera hið besta mál,“ segir Jóhannes í samtali við Fréttablaðið.

Ferðagjöfin var hluti af aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við efnahagslegum áhrifum COVID-19 faraldursins. Er hún sögð vera liður í því að styðja við bakið á íslenskri ferðaþjónustu sem berst víða í bökkum.

Allir einstaklingar fæddir árið 2002 eða fyrr með lögheimili á Íslandi og íslenska kennitölu fengu Ferðagjöf að upphæð 5.000 króna.

Þess ber að geta að þrátt fyrir að Olís og Domino‘s raði sér ofarlega á listann er ekki um að ræða umtalsverðan hluta af þeim 139 milljónum króna sem þegar hafa verið nýttar.

Mest af því hefur farið til gististaða eða 44 milljónir króna. Þar á eftir koma veitingastaðir og fyrirtæki sem bjóða upp á ýmis konar afþreyingu með 40 milljónir hvort.

Hvetur fólk til að nýta gjöfina

„Við auðvitað viljum gjarnan að þetta nýtist eins og til var ætlast og fari til ferðaþjónustufyrirtækja til að örva viðskipti Íslendinga við íslenska ferðaþjónustu. Mér sýnist nú meirihlutinn vera að gera það.“

Jóhannes segir Samtök ferðaþjónustunnar ekki heldur gera sérstaka athugasemd við það að skyndibitastaðir hvetji fólk með auglýsingum til að nota Ferðagjöfina hjá sér.

„Við bara hvetjum fólk til að nýta þetta eins og því finnst skynsamlegast og bendum á að íslensk ferðaþjónusta er með mjög margvíslegt framboð um allt land svo bara endilega nýta gjöfina. Það væri allra leiðinlegast ef stór hluti hennar stæði eftir ónýttur.“