Fram­kvæmda­stjórn Land­spítala hefur nú gert nokkrar at­huga­semdir við full­yrðingar formanns Fé­lags sjúkra­hús­lækna sem komu fram um helgina. Theo­dór Skúli Sigurðs­son hélt því fram að ekki væri hlustað á starfs­fólk Land­spítala heldur frekar á for­svars­menn spítalans sem telja að um mönnunar­vanda sé fyrst og fremst að ræða en ekki fjár­magns­vanda.

Í færslu á Face­book síðu sinni á sunnu­dag sagði Theo­dór að hann hafi upp­lifað í­trekaðar sparnaðar­að­gerðir innan veggja Land­spítala og að í­trekað hafi verið varað við stöðunni á gjör­gæslu­deildum spítalans undan­farin ár. „Fram að ára­mótum þurfti að spara 750 milljónir til að halda fjár­hag Land­spítalans réttum megin við strikið með öllum ráðum.“

„Læknar voru beðnir um að lækka starfs­hlut­fall, ekki átti að greiða læknum auka­greiðslu fyrir að taka vakt vegna for­falla, loka skurð­stofum, stöðva dýrari inn­grip og fækka gjör­gæslu­plássum,“ sagði Theo­dór meðal annars. „Yfir­stjórn Land­spítalans tók með­vitað sénsinn og tapaði, því fór sem fór og sam­fé­lagið tekur af­leiðingunum.“

Segja stjórnendur ítrekað hafa bent á vanfjármögnun

Í svari fram­kvæmda­stjórnar Land­spítala segir aftur á móti að for­stjóri spítalans og aðrir stjórn­endur hafi ítrekið haft mál á van­fjár­mögnun spítalans. Stjórn­endur og starfs­menn spítalans hafa barist fyrir auknum fjár­fram­lögum í sam­tölum við stjórn­völd og með form­legum hætti á vett­vangi fjár­veitinga­valdsins auk þess að eiga um það fjöl­mörg við­töl við fjöl­miðla.“

„Fjölgun gjör­gæslu­rýma er á meðal þess sem aukin fjár­fram­lög ættu að renna til. Sér­stak­lega hefur verið bent á þá stað­reynd að gjör­gæslu­rými eru með þeim fæstu sem gerast í löndum OECD enda hafa raddir starfs­manna verið skýrar þar um,“ segir í svari fram­kvæmda­stjórnar.

Þá er vísað til full­yrðinga Theo­dórs um að færri hafi fengið starf en vildu síðasta vetur þegar hjúkrunar­fræðingar sóttu um starf en fram­kvæmda­stjórn segir öllum þeim sem höfðu hæfni og starfs­leyfi hafa verið boðið starf, fyrir utan einn. Gjör­gæslu­rýmum hafi síðan verið fjölgað eftir sumar­leyfi og eru nú 14 rými mönnuð.

Ekki rétt að hætt hafi verið að bjóða upp á lengingu

Theo­dór hélt því einnig fram að enginn sumar­bónus hafi verið í boði fyrir starfs­menn og að hætt hafi verið að bjóða starfs­mönnum 25 prósent lengingu á sumar­fríum ef þeim yrði frestað yfir á­lags­tímann. Fram­kvæmda­stjórn segir þá full­yrðingu ekki rétta heldur hafi verið boðið upp á lengingu leyfa í sumar, í sam­ræmi við kjara­samninga.

Hvað sumar­bónusa varðar hafi verið um að ræða sér­stakt átak á árunum 2016 til 2019 en með nýjum kjara­samningum hafi sumar­bónusum verið skipt út fyrir á­kvæði um betri vinnu­tíma og styttingu vinnu­vikunnar þar sem starfs­fólk er hvatt til að taka fjöl­breyttari vaktir.

„Á­réttað skal að um launa­hækkanir og önnur starfs­kjör er samið í mið­lægum kjara­samningum milli stéttar­fé­laga og fjár­mála­ráðu­neytis, án að­komu Land­spítala,“ segir í svari fram­kvæmda­stjórnar.

Farsælla þegar umræðan er byggð á staðreyndum

Að lokum svarar fram­kvæmda­stjórnin full­yrðingum Theo­dórs í fjöl­miðlum um að vöxtur hafi verið í fram­kvæmda­stjórn og öðrum stjórn­enda­hópum Land­spítala. Hið rétta sé þó að fækkað hafi verið um 40 prósent í fram­kvæmda­stjórn auk þess sem öðrum stjórn­endum hefur fækkað. Starfs­mönnum hafi fjölgað nokkuð en fjölgun stjórn­enda ekki haldist í takt við þá þróun.

„Mark­mið okkar allra er upp­lýst og upp­byggi­leg um­ræða um spítalans og fram­tíð hans. Far­sælla er þegar slík um­ræða er byggð á stað­reyndum og er á­huga­samt starfs­fólk hvatt til að afla sér gagna, sem m.a. er unnt að fá í starf­semis­upp­lýsingum spítalans og frá hag­deild hans,“ segir fram­kvæmda­stjórnin.