Nefnd um eftirlit með lögreglu og ríkissaksóknari gera alvarlegar athugasemdir við rannsókn lögreglu á andláti hinnar 19 ára Perlu Dísar Bachmann. Hún lést á heimili kærasta síns sunnudaginn 22. september 2019. Fjallað var ítarlega um mál Perlu Dísar í Kveik í kvöld á RÚV.
Í Kveik í kvöld kom fram að samkvæmt gögnum málsins er dánarstund Perlu Dísar ókunn, ekki er vitað hvort kærastinn hafi verið inni í herberginu þegar hún lést eða nokkuð um tímarammann fyrir og eftir andlátið. Þá kom fram að í réttarkrufningu hafi ekki verið hægt að leiða í ljós hvernig MDMA komst í líkama Perlu og að magnið í líkama hennar hafi verið það mesta sem nokkurn tíma hafi mælst á Íslandi. Með óvísindalegum útreikningi megi gera ráð fyrir að Perla Dís hefði þurft að innbyrða um fimm hrein grömm af efninu til að fá út mælinguna sem fékkst í réttarkrufningu, en mælingin sýndi um tífaldan eða tuttugufaldan dauðaskammt efnisins.
„Það á enginn að geta tekið líf og fengið aðstoð við það frá lögreglunni,“ sagði móðir Perlu Dísar, Kristín Birta, í þættinum, en hún hefur gert alvarlegar athugasemdir við rannsókn lögreglu á málinu og meintum þætti kærasta Perlu Dísar í andláti hennar.
„Hún verður alltaf partur af öllu sem við gerum,“ sagði Kristín Birta í Kveik þegar sýnt var frá brúðkaupsdegi hennar í fyrra og má sjá hana halda á mynd af Perlu Dís í myndatöku.
Þótti skemmtilegt að byrla öðrum ólyfjan
Talað er við konu í þættinum sem er sögð fyrrverandi kærasta mannsins sem Perla Dís var með og greinir hún frá því að honum hafi þótt skemmtilegt að byrla fólki ólyfjan og fylgjast með því. Þá greinir hún, og fjórar aðrar, frá því að hann hafi beitt þær ofbeldi á meðan hann var í sambandi með þeim.
Einnig var talað við Pétur Guðmann Guðmannsson, réttarmeinafræðinga, sem krufði Perlu Dís í umfjölluninni og Sigrúnu Ingibjörgu Gísladóttur sem er lögmaður Birtu Kristínar. Sigrún gagnrýnir að þáttur kærasta Perlu Dísar hafi ekki verið rannsakaður nægilega vel.