Nefnd um eftir­lit með lög­reglu og ríkis­sak­sóknari gera al­var­legar at­huga­semdir við rann­sókn lög­reglu á and­láti hinnar 19 ára Perlu Dísar Bachmann. Hún lést á heimili kærasta síns sunnu­daginn 22. septem­ber 2019. Fjallað var ítar­lega um mál Perlu Dísar í Kveik í kvöld á RÚV.

Í Kveik í kvöld kom fram að sam­kvæmt gögnum málsins er dánar­stund Perlu Dísar ó­kunn, ekki er vitað hvort kærastinn hafi verið inni í her­berginu þegar hún lést eða nokkuð um tíma­rammann fyrir og eftir and­látið. Þá kom fram að í réttar­krufningu hafi ekki verið hægt að leiða í ljós hvernig MDMA komst í líkama Perlu og að magnið í líkama hennar hafi verið það mesta sem nokkurn tíma hafi mælst á Ís­landi. Með ó­vísinda­legum út­reikningi megi gera ráð fyrir að Perla Dís hefði þurft að inn­byrða um fimm hrein grömm af efninu til að fá út mælinguna sem fékkst í réttar­krufningu, en mælingin sýndi um tífaldan eða tuttugufaldan dauðaskammt efnisins.

„Það á enginn að geta tekið líf og fengið að­stoð við það frá lög­reglunni,“ sagði móðir Perlu Dísar, Kristín Birta, í þættinum, en hún hefur gert al­var­legar at­huga­semdir við rann­sókn lög­reglu á málinu og meintum þætti kærasta Perlu Dísar í and­láti hennar.

„Hún verður alltaf partur af öllu sem við gerum,“ sagði Kristín Birta í Kveik þegar sýnt var frá brúð­kaups­degi hennar í fyrra og má sjá hana halda á mynd af Perlu Dís í mynda­töku.

Þótti skemmtilegt að byrla öðrum ólyfjan

Talað er við konu í þættinum sem er sögð fyrr­verandi kærasta mannsins sem Perla Dís var með og greinir hún frá því að honum hafi þótt skemmti­legt að byrla fólki ó­lyfjan og fylgjast með því. Þá greinir hún, og fjórar aðrar, frá því að hann hafi beitt þær of­beldi á meðan hann var í sam­bandi með þeim.

Einnig var talað við Pétur Guð­mann Guð­manns­son, réttar­meina­fræðinga, sem krufði Perlu Dís í um­fjölluninni og Sig­rúnu Ingi­björgu Gísla­dóttur sem er lög­maður Birtu Kristínar. Sigrún gagn­rýnir að þáttur kærasta Perlu Dísar hafi ekki verið rann­sakaður nægi­lega vel.

Þáttinn er hægt að horfa á í heild sinni á heimasíðu RÚV.