Viðskiptahugmynd þeirra um alþjóðlegt, rafrænt markaðstorg og þekkingarsamfélag sem setur afgangsefni í nýtt samhengi og fékk nafnið On to Something, hlaut fyrstu verðlaun í teymisflokki viðskiptahraðals á vegum Háskóla Íslands og bandaríska sendiráðsins á dögunum.

Markmið hraðalsins er að styðja konur í að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar og fyrirtæki og auka hlut þeirra innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans.

María Kristín er menntaður vöruhönnuður og var ritstjóri og listrænn stjórnandi HA, tímarits miðstöðvar um hönnun og arkitektúr, í fjögur ár.

„Tímaritið var svo sett í pásu árið 2020 vegna Covid enda þorði fólk ekki að snerta tímarit af ótta við smit.“

Sara menntaði sig í viðskipta- og markaðsfræði en örlögin höguðu því þannig að hún hefur minnst starfað við það.

„Ég svo sem vissi alltaf að ég myndi vinna í kreatívum bransa,“ segir Sara, sem starfaði lengi á auglýsingastofu og við almannatengsl.

„Ég var að vinna hjá auglýsingastofu og við gerð sjónvarpsauglýsinga sá ég mikið um leikmynd og búninga. Þegar stofan svo flutti á milli húsnæða var ég svo lánsöm að fá að innrétta það,“ segir hún um upphafið á hönnunarferli sínum, en hún hefur meðal annars hannað kaffihús og verslanir Brauð & Co og Hygge, nýtt kaffihús í gamla Héðinshúsinu við Seljaveg.


Áskorun í matarboði


Sara stjórnaði HönnunarMars í fjögur ár og þar kynntist hún Maríu Kristínu.

„Við unnum ekki beint saman en á sömu skrifstofu. Það var í lok samstarfs okkar að við kynntumst betur enda báðar að fara í gegnum miklar umbreytingar,“ segir Sara.

Það var svo í matarboði hjá Kristínu Soffíu Jónsdóttur, framkvæmdastjóra Klaks, og vinkonu Maríu Kristínar, að hún heyrði fyrst af viðskiptahraðlinum Hringiðu hjá Klaki.

„Kristín Soffía var þá nýbúin að setja á laggirnar þennan hraðal og skoraði á mig að koma með hugmynd og sækja um. Þetta var í janúarlok á síðasta ári og hún sagði:

„Þið Sara eruð svo sniðugar, gerið þið eitthvað saman,“ rifjar María Kristín upp í léttum tón.

„Við sátum í framhaldi yfir nokkrum kaffibollum og spurðum okkur hvað við ættum að gera,“ bætir Sara við.

„Við hugsuðum: „Hvað vantar og hvað höfum við fram að færa í hringrásarhagkerfinu?“

„Við hugsuðum: „Hvað vantar og hvað höfum við fram að færa í hringrásarhagkerfinu?“

Sara

Fundu hvar þörfin lá


Þær fóru að skoða möguleikana og funduðu með fjölmörgum stofnunum, fyrirtækjum og einstaklingum.

„Við vorum að skoða hvar þörfin lá og hvernig við gætum tekið tvist á það,“ segir María Kristín og Sara bætir við að hugmyndin hafi þróast töluvert í hraðlinum þar sem þær fengu góðan stuðning.

„Við vorum svo auðvitað í fullt af öðrum verkefnum, erum báðar fráskildar með haug af börnum og alltaf eitthvað havarí,“ segir Sara í léttum tón. 

„Við höfum til að mynda verið sýningarstjórar og stjórnað viðburðum en sóttum um í AWE-nýsköpunarhraðlinum sem Háskóli Íslands stendur fyrir í samvinnu við bandaríska sendiráðið.

Það kjarnaði þetta vel fyrir okkur og við gerðum viðskiptaáætlun og fengum styrk frá Tækniþróunarsjóði sem munaði töluverðu til að vinna betur að þessu.“

En að hugmyndinni sjálfri.

„Fyrirtæki og sveitarfélög hér og annars staðar eru að losa sig við efni sem nýta mætti sem hráefni í framleiðslu hjá öðrum. Þetta eru allar tegundir efna, við til dæmis vitum að bjórframleiðsla losar sig við rosalega mikið af geri sem þau geta ekki nýtt aftur en má nýta í aðra framleiðslu.

Önnur fyrirtæki og stofnanir losa sig svo við fjölbreytt verðmæt hráefni. Mikið af þessum efnum fer í dag í brennslu, urðun og útflutning en mætti sinna betur. Hingað til hafa fyrirtæki ekki verið að stæra sig af því hverju þau eru að farga en flest eru að gera sitt besta miðað við þær lausnir sem í dag bjóðast,“ útskýrir Sara.

„Hingað til hafa fyrirtæki ekki verið að stæra sig af því hverju þau eru að farga en flest eru að gera sitt besta miðað við þær lausnir sem í dag bjóðast."

Sara

Gera markaðinn aðlaðandi


„Við ætlum að færa þennan markað upp á yfirborðið og gera hann bæði aðgengilegan og aðlaðandi. Svo fólk, fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir sjái þessi efni sem ákjósanlegan kost sem hráefni í sína starfsemi,“ segir Sara og bætir við að einhver dæmi séu um viðskipti á þessum nótum.

„En ef fólk ætlar sér að ná í slík hráefni er enginn staður til þess og það þarf að hringja fjöldamörg símtöl til að finna út úr því hvar það fær rétt efni. Við ætlum því að gera markaðstorg þar sem aðilar skrá sín afgangsefni svo aðrir geti séð hvað er í boði. Þetta er þannig viðskiptavettvangur fyrir fagaðila. Forsjáraðili fyrirtækisins velur svo hvort hann vilji selja efnið eða gefa það en alla vega losnar hann við að greiða fyrir förgun.“

Þar sem Sara hafði áður nefnt dæmi um bjórframleiðslu höldum við áfram í þeim geira:

„Við vitum að ger má nýta í snyrtivöruframleiðslu og á einhverjum skala í brauðgerð aftur.“ Eins nefnir hún gott dæmi um þá nýtingu sem þær vilja gera almennari.

„Við vitum að hrat úr byggi sem notað er í bjórframleiðslu fer beint í svínafóður sem er frábært dæmi um svona nýtingu. Það á svo eftir að koma í ljós hvaða viðskiptahugmyndir munu spretta úr þessu, þegar fólk er allt í einu komið með þetta hlaðborð fyrir framan sig.“


Fagurfræðin er X-faktorinn


María Kristín segir þær ætla að nýta sér reynslu sína úr skapandi geiranum við útfærslu á nálgun sinni.

„Við höfum verið spurðar hver sé okkar X-faktor og hvers vegna fólk geti ekki bara notað þau markaðstorg sem fyrir eru. En við nálgumst þetta út frá fagurfræðilegu sjónarhorni og On to Something verður útlitslega á pari við það helsta sem gerist í tísku og hönnun.“

„En við nálgumst þetta út frá fagurfræðilegu sjónarhorni og On to Something verður útlitslega á pari við það helsta sem gerist í tísku og hönnun.“

María Kristín

María segir fyrirtæki sem eru framarlega í þessari þróun skilja það sem þær eru að fara.

„Það er vöntun á þessu. Við hittum fullt af hönnuðum á HönnunarMars sem spurðu okkur um verðlaunin og þegar ég fór að útskýra um hvað þetta snerist kviknuðu margar perur.

Þessi hugmynd er til dæmis verðmæt fyrir hönnunargeirann, vísindasamfélagið og frumkvöðla. Enda hafa fæstir ráðrúm til að hringja um allt til að kanna hvort hægt sé að nýta afgangsefni frá þeim. En þegar þetta er allt komið á einn stað verður þetta svo mikið auðveldara fyrir alla.“

VIð lok AWE- hraðalsins voru verkefni tengd umhverfissjónarmiðum, samgöngum, sjálfbærri ræktun, aðstoð við listamenn, umhverfisvæna verslun og veflausn tengd forvörnum gegn ofbeldi verðlaunuð. mynd/Aðsend

Þær hugsa stórt og sjá fyrir sér að fara á alþjóðamarkað þegar fram í sækir.

„En þá skiptir máli að láta þetta ganga upp innan landsvæða til að spara kolefnisfótsporið.“

Aðspurðar hvenær síðan fari í loftið segjast þær vera að leita eftir frekara fjármagni til að koma fyrirtækinu á flug.

„Það er búið að hanna grunnútlit síðunnar og næsta skref er að fara í hugbúnaðargerð. Við erum komnar með samninga við nokkur framsækin stórfyrirtæki sem verða með okkur í að þróa næstu skref,“ segja þær að lokum.