Georg Georgs­son hefur unnið hjá Frum­herja í yfir þrjá­tíu ár en hann eins og margir aðrir lendir núna í skertu starfs­hlut­falli. Starfs­menn í deild Georgs voru allir færðir niður í 50% starfs­hlut­fall og var þeim bent á að sækja um bætur hjá Vinnu­mála­stofnun. Georg var hins vegar hafnað af Vinnu­mála­stofnun fyrir þær einu sakir að vera orðinn 70 ára gamall á sama tíma og samstarfsfélagar hans fengu styrk frá stofnuninni. Engu máli skiptir að hann vinni sömu störf og með sömu laun og sam­starfs­fé­lagar hans sem gagnrýna þessa ákvörðun og óréttlæti harðlega. Er Georg niðurbrotinn vegna þeirrar stöðu sem upp er komin.

Varð fyrir áfalli

„Ég komst að þessu í gær og varð bara fyrir á­falli yfir þessu,“ segir Georg í sam­tali við Frétta­blaðið. Hann segir að þetta muni að sjálf­sögðu hafa mikil á­hrif á hann tekju­lega enda sé á­stæða fyrir því að hann sé enn að vinna. „Maður er að vinna því maður þarf á því að halda ekki satt. Maður er ekkert með fullar hendur fjár þannig þetta skiptir mann auð­vitað máli. En fyrst og fremst og aðal­lega finnst mér þetta særandi fyrir mig að maður skuli ekki vera gjald­gengur í sam­fé­laginu eins og allir aðrir vinnandi menn,“ segir Georg en það mátti heyra að hann var mjög sár yfir þessari niðurstöðu.

„Ég vinn fulla vinnu, skila mínu og búinn að gera öll mín ár. Svo kemur þetta upp og þá er sagt „þú ert of gamall karlinn minn.“ Samt er verið að tala um að við ætlum að gera þetta allt saman, vinna í þessu saman. Það er meira að segja verið að biðja eldri kyn­slóðir til að mæta til vinnu og bjarga málum. Svo þegar það kemur að þessu þá er maður ekki gjald­gengur og þetta er særandi,“ segir hann enn fremur.

„Þetta snertir örugg­lega mjög marga sem eru í mínum sporum. Það getur komið mjög illa við ein­hvern og jafn­vel verr heldur en mig en ég reiknaði alltaf með því að fá mín laun," segir Georg.

„Við erum öll í þessu saman, er það ekki?“

Sam­starfs­fé­lagar Georgs hjá Frum­herja eru gáttaðir á þessu og spyr Svan­berg Sigur­geirs­son, sam­starfs­fé­lagi Georgs, á sam­fé­lags­miðlum hvernig það megi vera að maður sem Georg verð­skuldi þessa fram­komu að hálfu ríkis­stjórnarinnar? „Þegar einn af okkar vinnu­fé­lögum fer að grafa í sínu máli kemur í ljós að um­ræddar ráð­stafanir ríkis­stjórnarinnar gilda ekki fyrir þá sem náð hafa 70 ára aldri en það á við um hann.

Engu máli skiptir þótt hann vinni ná­kvæm­lega sömu störf og með sömu laun og fé­lagar hans. Þessi góði starfs­fé­lagi hefur unnið 20 árum lengur en flestir hinir, skil­vís­lega greitt gjöld af sínum launum, aldrei þegið elli­líf­eyri eða aðrar bætur frá TR – hann fær ekki neitt. Hvernig má það vera að maður sem hann verð­skuldi fram­komu sem þessa að hálfu ríkis­stjórnarinnar? Við erum öll í þessu saman, er það ekki?“ skrifar Svan­berg.

Hann hafði sam­band við Vinnu­mála­stofnun og fékk þau svör að sam­kvæmt lögum um at­vinnu­leysis­tryggingar eiga bara ein­staklingar á aldrinum 18 til 70 rétt á at­vinnu­leysis­bótum. „Ekki er vikið frá því skil­yrði vegna minnkaðs starfs­hlut­falls, því miður þá eiga 70 ára og eldri ekki rétt til at­vinnu­leysis­bóta,“ segir í póstinum frá Vinnu­mála­stofnun.

Samstarfsfélagar Georgs eru afar ósáttir við óréttlætið sem þeim finnst Georg beittur og hafa skorað á fólk að deila frásögn hans.