Vel gengur að rýma Seyðisfjörð og er engra saknað. Jóhann K. Jóhannsson, upplýsingafulltrúi almannavarna, segir að verið sé að ferja fólk yfir til Egilsstaða og jafnvel einhverjir komnir.

Flestir byrja á því að fara í Egilsstaðaskóla þar sem er búið að setja upp fjöldahjálparstöð. Hann segir mikilvægt að allir mæti þangað til að skrá sig. Þar er einnig í boði sálrænn stuðningur en að sögn þeirra sem Fréttablaðið hefur talað við í kvöld eru íbúar í miklu áfalli.

Hættustigi var einnig lýst yfir á Eskifirði í kvöld og á að rýma sex götur. Þar eru nokkrir tugir húsa og því ljóst að talsverður fjöldi þarf að yfirgefa heimili sín í kvöld. Að sögn Jóhanns gengur einnig vel að rýma þar. Fólk fer í fjöldahjálparstöð Rauða kross Ís­lands í kirkju- og menningar­mið­stöðinni að Dal­braut 2 á Eski­firði.

Mikið að gera hjá RKÍ

Brynhildur Bolladóttir, upplýsingafulltrúi Rauða kross Íslands, segir að vel gangi í fjöldahjálparstöðvum en núna sé mikið að gera.

„Á Seyðisfirði gengur mjög vel, en þetta er bara að gerast á Eskifirði. Það gengur líka vel á Egilsstöðum í skólanum,“ segir Brynhildur.

Hún segir að atburðirnir séu mikið áfall fyrir fólk.

Á Eskifirði er fjöldahjálparstöð utan rýmingarsvæðisins og því er líklegt að fólk þurfi ekki að yfirgefa bæinn.

„Við erum að reyna að fá alla til að skrá sig þannig við höfum þá allavega einhverja tölu og svo upplýsingar um það hvar fólk ætlar að gista og ef einhver þarf að vera í fjöldahjálparstöðinni þá verða þær að sjálfsögðu opnar,“ segir Brynhildur.

Aðstæður eru vægast sagt hræðilegar á Seyðisfirði.
Fréttablaðið/Gunnar

Mikil eyðilegging

Alls hafa þrjár aurskriður fallið á Seyðisfirði í vikunni og eyðilagt í það minnsta tíu hús. Neyðarstigi almannavarna var lýst yfir í kvöld vegna aðstæðna á svæðinu. Samkvæmt Þjóðskrá bjuggu á Seyðisfirði í byrjun árs um 700 manns og því er mikið verk að vinna að koma öllum inn einhvers staðar að gista á Egilsstöðum.

Sandra Rut Skúladóttir, brottfluttur Seyðfirðingur sem býr nú á Egilsstöðum segir að mikill samhugur sé í fólki og að fjölmargir einstaklingar og fyrirtæki hafi boðið fram aðstoð sína. Sandra segir að viðbrögð hafi farið fram úr öllum hennar björtustu vonum.

„Það eru margir búnir að bjóða fram bæði aðstoð og gistingu. Hótelin eru búin að opna fyrir Seyðfirðinga og matsölustaðir,“ segir Sandra.

Hún sagði að fólk yrði að byrja á því að gera grein fyrir sér í fjöldahjálparstöð á Egilsstöðum og Rauði krossinn sæi um að vísa fólki áfram.

„Rauði krossinn skoðar listann þar sem kemur fram hverjir eru búnir að bjóða fram aðstoð sína. Það er gott að hafa slíkan lista því þetta eru auðvitað allir Seyðfirðingar sem þurfa gistingu,“ segir Sandra og bætir við að allir Seyðfirðingar séu velkomnir í kaffi til hennar.

Hún þakkar fyrir að aðstæður séu núna þannig að hægt sé að komast á milli en óskar þess, eins og margir aðrir núna, að samgöngur væru betri almennt.

„Það er nauðsynlegt að fá göng yfir Fjarðarheiðina. Það hefði verið hræðilegt ef ekki hefði verið fært á milli við þessar lífshættulegu aðstæður,“ segir Sandra að lokum.

Hótel Hallormsstaður, Valaskjálf og Tehúsið eru meðal þeirra sem hafa boðið gistingu, auk fjölda annarra á facebooksíðu...

Posted by Sandra Rut Skúladóttir on Friday, 18 December 2020