„Þetta er bara klúður ofan á klúður,“ segir Unnur Björnsdóttir, stjórnarmaður í Foreldrafélagi Fossvogsskóla, um ástand mála þar. Mikil reiði er meðal foreldra barna í Fossvogsskóla því enn er ekki hægt að hefja kennslu í skólabyggingunni eftir áralanga viðureign borgaryfirvalda við myglu sem leikur húsnæðið grátt.

Er kennsla hefst verður aðeins yngsti árgangurinn á skólalóðinni og hefur nám sitt í færanlegum kennslustofum. Börnin í öðrum, þriðja og fjórða bekk fá kennslu í kjallara íþróttahúss Víkings og elstu tveimur árgöngunum er áfram ekið í Korpuskóla.Unnur á eitt barn í Fossvogsskóla og annað sem lauk þar námi í vor.

Þriðja barn Unnar er á leikskólanum Kvistaborg sem er nú lokuð vegna framkvæmda til að vinna bug á myglu og börnin sem þar eru fá í staðinn inni í húsnæði í Safamýri.„Við vitum ekkert um þetta húsnæði í Safamýri. Það sorglegasta er að það er ekki búið að lyfta hamri á hvorugum staðnum. Það er bara búið að vera að henda rusli,“ segir Unnur sem býr steinsnar frá bæði Kvistaborg og Fossvogsskóla.

Unnur Björnsdóttir, stjórnarmaðr í Foreldrafélagi Fossvogsskóla.

„Það hefur ekki verið nein hreyfing. Það hafa verið tveir menn að henda rusli við Fossvogsskóla í allt sumar. Það tók átta vikur að fjarlægja asbest. Það tók svo langan tíma af því að þau voru svo sein að sækja um leyfi,“ segir Unnur.

Stöðuna segir Unnur afleita fyrir fólk sem sé vant því að ganga með börn sín í skólann eða leikskólann.„Þetta er einfaldlega meiri háttar rask á daglegri rútínu fyrir fólk með börn. Þetta er að hafa áhrif á fjölda vinnustaða,“ bendir Unnur á og gagnrýnir hægaganginn harðlega.

„Það er það sem mér svíður mest. Börnin mín fengu hausverk en þau urðu líka bílveik af því að keyra í rútu upp í Korpuskóla. Ég er sammála því að auðvitað eigum við ekki að hafa skemmt húsnæði en lausnirnar sem eru í boði eru ekki að bæta neitt. Það þarf að leita almennilegra lausna. Kínverjar gátu byggt spítala á tíu dögum,“ minnir Unnur á.

Þá segir Unnur að svo virðist sem enginn raunverulegur vilji sé til að bæta ástandið. Það endurspeglist í því að lausnin eigi að vera að senda þrjá árganga af börnum ofan í gluggalausan kjallara.Unnur segir eitt barn sitt „sloppið úr Fossvogsskóla“ og sé „sem betur fer“ að fara í Réttarholtsskóla.

Þar hafi að vísu komið upp mygla en tekið hafi verið á því af festu.„Í Réttó hafa framkvæmdir verið í gangi í allt sumar. Þar hafa verið vörubílar á kvöldin og allt að gerast. Þau fengu færanlega kennslustofu sem verður tilbúin í október, það er komið plan frá skólastjóranum og þetta verður í lagi,“ lýsir Unnur. Engin svör fengust frá Reykjavíkurborg í gær um Fossvogsskóla.