Hópur kvenna gekk út af jafnréttisþingi og virtust gefa Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar, rauða spjaldið er hún hélt erindi sitt á ráðstefnunni í Hörpu í dag.

Í erindi sínu fjallað Sólveig Anna um efnahagslega kúgun verka- og láglaunakvenna á íslenskum vinnumarkaði og hvaða áhrif slík kúgun hefði.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins reit hópur kvanna úr sætum á meðan á erindinu stóð, lyftu upp rauðum borða með skriflegum skilaboðum, og þá héldu þær á sitthvoru rauða spjaldinu, sem virtist beint að Sólveigu. Í kjölfarið gengu þær út.

Fréttablaðið hefur ekki heimildir fyrir því hver skriflegu skilaboðin á borðanum voru.

Fréttablaðið/Aðsend

Mikil ólga hefur verið innan verkalýðshreyfingarinnar á undanförnum misserum. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, drógu framboð sín til baka, ásamt Sólveigu Önnu, í forystuslag ASÍ á dögunum. Þau sögðust gera það vegna þess að svo virtist sem lítill samstarfsvilji væri úr öðrum kimum hreyfingarinnar.

Í kjölfarið sagði Sólveig að sér væri orðið ljóst að vonin um um-bætur á ASÍ væri úti. Þá sagðist hún ekki hafa neinn áhuga á að bjóða sig aftur fram til varaformanns samtakanna.

Þá vakti mikið umtal, fyrr á þessu ári, þegar öllu starfsfólki Eflingar var sagt upp. Það gerðist á fyrsta degi Sólveigar Önnu sem formanns, eftir að hún hafði verið kjörin í embættið í annað skipti. Hún sagði þær ekki vera hreinsanir á „óæskilegu fólki“ heldur skipulagsbreytingar sem byggðu á mikilli greiningarvinnu.

Uppfært

Skilaboðin á borða kvennanna voru: „Við erum að dæma þennan leik og þú færð rauða spjaldið“. Þetta kemur fram í frétt Stundarinnarum málið, en þar segir jafnframt að konurnar sem mótmæltu væri hópur kvenna af erlendum uppruna. Þær gagnrýndu að Sólveig væri fengin til að ræða málefni erlendra kvenna í kjölfar framgöngu sinnar sem formaður Eflingar. Þær telja að hún hafi grafið undan þátttöku erlendra kvenna á vinnumarkaði. 

Konurnar fjórar eru Phoenix Jessica Ramos, Agnieszka Sokolowska, Cristina Milcher og Wiktoria Joanna Ginter. Í grein Stundarinnar má jafnframt lesa yfirlýsingu þeirra.