Hjónin Anna Liszewska og Matúš Lašan gengu í sumar um þrjú þúsund kílómetra á Íslandi, næstum allan hringinn í kringum landið eða frá Vestfjörðum og á Blönduós á 103 dögum. Þau Anna og Matus fara reglulega í langar göngur sem eru svokallaðar „thru-hiking“ þar sem aðeins er gengið, aldrei farið neitt á bíl.

Einu skiptin sem þau notuðu bíl í þá þrjá mánuði sem þau voru á landinu þá var það til að sækja vistir og gættu þau þess að enda alltaf aftur á þeim stað sem þau luku göngu síðast.

Matúš er frá Slóvakíu og Anna frá Póllandi. Þau kynntust á Nýja-Sjálandi en búa í Tékklandi. Matus er geislafræðingur og segir að vegna vinnu sinnar hafi hann tækifæri til að geta tekið sér löng leyfi til að fara í göngur.

„Við elskum að ganga, eða við elskum „thru-hiking“, sem er að ganga langa vegalengd í einni atrennu. Við kynntumst í einni slíkri göngu á Nýja-Sjálandi,“ segir Matus og horfir á Önnu.

Gangan í Nýja-Sjálandi kallast Te Araroa og er um 1.600 kílómetra löng og tekur fólk yfirleitt um fjóra mánuði að ganga hana ef það fer 25 kílómetra á dag. Eftir hana fóru þau saman í Great Patagonia Trail sem er í heildina 3.000 kílómetrar og fer yfir Síle til Argentínu.

„Við náðum bara að klára 2.600 kílómetra því við vorum svo hrædd að komast ekki yfir til Argentínu,“ segir Matúš en þau voru í þeirri göngu við upphaf heimsfaraldursins.

Hér má sjá gönguleiðina sem Anna og Matúš fóru í sumar á Íslandi.
Mynd/Matúš Lašan

Kynnist landinu á annan hátt

Þau segja að eftir að heimsfaraldurinn hófst hafi þau þurft að hugsa um nýja staði til að ganga á.

„Ísland virtist þá vera næsta rökrétta skref því okkur langaði að geta verið í einu landi að ganga því hitt var, í faraldrinum, ákveðinn ómöguleiki,“ segir Matúš.

„Thru hiking er svo frábær leið til að kynnast landinu því þú ferð á svo marga staði sem fólk fer ekki venjulega á og sérð hluti sem fáir sjá. Þú kynnist því á dýpri hátt held ég. Það er ein af ástæðunum fyrir því að mér finnst þetta svo skemmtileg,“ segir Anna.

„Heilt á litið var gangan æðisleg, en þetta er Ísland, þannig auðvitað var þetta krefjandi líka. Í upphafi göngunnar vissum við ekki almennilega hvað við værum að gera. Við byrjuðum í júní á Vestfjörðum og það var ótrúlega erfitt,“ segir Matúš og þau skella bæði upp úr og segja að þau hafi velt því fyrir sér hvort að ferðin yrði öll svona en í júní talsvert var enn um snjó og mjög kalt.

Þá erum við bara ekki þar sem við ætluðum að vera, en ekki villt

„Við fórum þá að velta því fyrir okkur hvort að við gætum þetta, og hvort þetta yrði svona allan tímann,“ segir Anna.

„Þegar við komum til Ísafjarðar sáum við svo mikinn snjó og sáum þá að við urðum að breyta ferðaáætluninni,“ segir Matúš.

Þau segja að eftir Vestfirði hafi þau farið á Snæfellsnes

„Það var enn kalt og mikið rok en varð smám saman betra,“ segir Matúš.

Þau segja að þau hafi reynt að fylgja ákveðnum gönguleiðum en það hafi ekki alltaf tekist. Þau myndu samt ekki segja að þau hafi verið villt, þó þau hafi villst af leið.

„Þá erum við bara ekki þar sem við ætluðum að vera, en ekki villt,“ segir Matúš og hlær.

Þau segja að það sem hafi verið mest krefjandi við gönguna hafi verið veðrið. Það hafi sem dæmi verið mjög slæmt þegar þau voru í Landmannalaugum og að erfitt hafi verið að setja tjaldið upp.

„við vorum með GPS mæli bæði og gættum þess alltaf að þegar við vorum að fara nýja slóð að merkja það inn á þannig við kæmumst aftur,“ segir Anna og að þau hafi altlaf passað að vera með aukamat með sér.

Þau segja að oft hafi verið krefjandi að finna góðan stað til að tjalda.
Mynd/Matúš Lašan

Ekki allt nægilega vel merkt

Þau segja að annað sem hafi verið krefjandi er að slóðarnir hafi ekki alltaf verið merktir inn á kortin en þau segja að þau séu vön því frá göngum í Evrópu að allt sé mjög vel merkt.

„Það var ekki alltaf tilfellið hér og stundum vorum við að finna slóða þar sem við vorum að vorum að breyta plani á síðustu stundu. Við vorum nokkuð oft að spinna upp nýjar gönguleiðir á staðnum,“ segir hann.

„En það gekk alltaf upp á endanum.“

En slóðarnir sjálfir, miðað við Evrópu, hvernig voru þeir?

„Það var íslenskur staðall á þeim,“ segja þau og að þeim hafi stundum liðið eins og það væri hugmynd um slóða sem ekki var til staðar.

Matúš og Anna náðu að njóta veðurblíðunnar á Austurlandi í sumar og segja að það hafi verið ágætis tilbreyting frá veðrinu á Vestfjörðum.

„En mér leið ekki eins og ég væri á Íslandi,“ segir Anna.

Bæði fóru þau í gegnum þrenn pör af skóm á þessum 103 dögum.
Mynd/Matúš Lašan

Vinunum finnst þau ekki alveg eðlileg

Þau segja að fjölskylda þeirra hafi alltaf sýnt þeim stuðning en þau eigi einhverja vini sem finnst þau ekki alveg eðlileg. Þau segja að lífsstílnum fylgi mikið frelsi en honum geti fylgt margar áskoranir líka.

„Stundum var erfitt að finna stað til að tjalda á og reikna hvort að vindurinn myndi taka tjaldið. Einu sinni eyddum við mjög löngum tíma í að finna stað til að tjalda en svo þegar við vöknuðum var eiginlega komin lítil á hliðina á okkur því það hafði rignt svo mikið,“ segir Matúš og Anna bætir við:

„Eitt sinn tjölduðum við og vorum með skjól í þremur áttum en auðvitað þegar við vöknuðum var vindurinn að blása úr þeirri fjórðu.“

Þau segja að næturbirtan á Íslandi hafi líka verið ákveðin áskorun.

Það sem er mikilvægast er að við höfum sama stíl. Við elskum að ganga allan daginn og fram á kvöld. Það er enginn að miðla málum hérna, við erum bæði að gera það sem við elskum mest

„Í fyrsta skipti þurftum við sjálf að meta hvenær við ættum að hætta að ganga. Við erum vön að ganga frá sólarupprás til sólseturs, en núna þá var ekkert þannig til að miða við. Suma daga gengum við í 15 klukkustundir og þó það hafi verið allt í lagi þann dag, þá var það erfitt daginn eftir,“ segir Matúš.

En hvernig er að vera alltaf saman?

„Við elskum það. Það er frábært,“ segir Matúš.

„Þetta er orðið svo langur tími, við erum orðin vön því,“ segir Anna.

Hún segir að þau hafi ekki gengið Te Araroa saman heldur hist í upphafi göngunnar og svo aftur við lok hennar, en þau hafi verið stanslaust saman síðan þá.

„Það sem er mikilvægast er að við höfum sama stíl. Við elskum að ganga allan daginn og fram á kvöld. Það er enginn að miðla málum hérna, við erum bæði að gera það sem við elskum mest,“ segir Matúš og Anna tekur undir það.

Áhuginn kom seint

Anna og Matúš eiga sér marga drauma um fleiri göngur og nefna Noreg sem dæmi, en segja að faraldurinn hamli þeim för.

„Við ætluðum að ganga yfir Evrópu en faraldurinn stoppaði það augljóslega,“ segir Anna því um væri að ræða 14 lönd og það myndi vera of erfitt eins og staðan er núna.

Matúš er ljósmyndari líka og segir að áhuga hans á fjallgöngum og „thru-hiking“ hafi komið í kjölfarið á því.

„Ég komst svo að því að mér fannst ekki bara gaman að taka myndirnar, heldur ævintýrið sem fylgdi því að fara út að taka myndirnar og þannig stækkaði alltaf ævintýrið,“ segir Matúš.

Anna segir að sem barn hafi hún ekki stundað fjallgöngur eða neitt slíkt. „Foreldra mínir áttu sveitabýli í Póllandi og það var alltaf erfitt að komast burt þannig við fórum aldrei í löng sumarleyfi. Þegar ég byrjaði að ferðast var það meira til að komast á milli staða og vinna hér og þar. En svo stuttu áður en ég fór til Nýja-Sjálands fór ég í mína fyrstu alvöru fjallgöngu og komst þá að því hvað mér finnst þetta skemmtilegt,“ segir Anna og bætir við:

„Ég varð svo alveg ástfangin í Te Araroa af fjallgöngum. Maður sér svo margt og veit aldrei hvernig dagurinn byrjar eða endar.“

Matúš er duglegur að birta myndir og fréttir af ferðalögum þeirra á Instagram en hægt er að fylgja honum hér að neðan og skoða myndir.