Tveir ferðamenn gengu þvert yfir hraunbreiðuna í Geldingadölum upp að hrauná sem rennur úr stóra gígnum. Daníel Páll Jónasson landfræðingur tók eftirfarandi myndir um þrjúleytið í gær en hann varð vitni að atvikinu og sá þá hverfa inn í þoku.

„Þeir voru ansi nálægt hrauninu úti á miðri hraunbreiðunni,“ útskýrir Daníel. Hann var sjálfur á svæðinu með leiðsögn fyrir bandaríska ferðamenn og hafði rétt lokið við að útskýra fyrir Bandaríkjamönnunum hættuna við að stíga á nýtt hraun þegar hann sá mennina tvo við gíginn.

Daníel er hreinlega ekki viss hvort ferðamennirnir komust öruggir til baka.
Mynd: Daníel Páll Jónasson
Hér má sjá ferðamennina tvo.
Mynd: Daníel Páll Jónasson

Hefur farið 26 sinnum upp að eldstöðvum og hefur oft séð ferðamenn stíga ofan á hraunið en aldrei séð neitt þessu líkt. „Þeir virtust vera um 100 metrum frá gígbarminum,“ útskýrir hann.

„Þetta er auðvitað stórhættulegt. Jafnvel þó það væri ekki rennandi hraun undir þá er hraunið sjálft egghvasst og ef þú ert fastur þarna verður þú að bíða eftir að hraunið renni yfir þig. Það er enginn að fara að bjarga þér.“

Hann segist ekki hafa séð mennina koma til baka og er hreinlega ekki viss hvort þeir hafi komist öruggir til baka. Þoka læddist yfir dalinn og sá hann ferðamennina hverfa í móðuna. „Þeir hurfu inn í þokuna og ég sá þá ekki lengur.“

Hvorki björgunarsveitarmenn né landverðir urðu vitni að því þegar ferðamennirnir stigu ofan á hraunið og lögðu leið sína að eldánni og sjálfur segist Daniel ekki hafa verið tilbúin að hætta lífi sínu til að sækja þá.

„Það er ekkert sem maður getur gert. Ég á sjálfur fjölskyldu og er ekki að fara á eftir þeim.“

Daníel Páll landfræðingur og ljósmyndari sem varð vitni að atvikinu.
Mynd: Daníel Páll Jónasson