Óhætt er að segja að mikill áhugi borgarbúa á nætursundi hafi komið Íþrótta- og tómstundaráði Reykjavíkur (ÍTR) á óvart en raðir voru komnar fyrir utan allar laugar um mitt kvöld.

„Við áttum kannski ekki alveg von á að það yrði þessi svakalegi áhugi strax á miðnætti,“ sagði Steinþór Einarsson, skrifstofustjóri rekstrar og þjónustu ÍTR, á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Uppselt var í allar laugar tuttugu mínútur yfir miðnætti og var mikil umferð í sundlaugarnar alveg fram til klukkan þrjú eða fjögur í nótt þegar loks fór að róast.

Sundlaugar Reykjavíkur hafa verið lokaðar frá því að hert samkomubann tók gildi þann 24. mars síðastliðinn.

Steinþór sagði að markmiðið með því að opna laugarnar í nótt hafi verið að ná betra flæði og reyna að koma í veg fyrir að allir myndu hrannast fyrir utan á mánudagsmorgunn.

Að hans sögn gekk allt vel fyrir sig í megindráttum en þó hafi sumir mátt gæta betur að tveggja metra reglunni.

„Það er svona eins og unga fólkið horfi ekki á merkingarnar fram undan heldur sé bara svolítið að horfa á símann sinn.“