Innkaup á geðlyfjum er stór hluti af heildar lyfjainnkaupum hjúkrunarheimila. Þetta kemur fram í svari Willums Þórs Þórssonar heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Evu Sjafnar Helgadóttur, þingmanns Pírata á Alþingi.

Samkvæmt svarinu kemur fram að 9,9 prósent heildarkostnaðar árið 2019 og 10,6 prósent árið 2020 hafi verið vegna geðrofslyfja, svefnlyfja og róandi lyfja. Það er næst stærsti liðurinn á eftir verkjalyfjum, þar sem kostnaðurinn er þó mjög svipaður. Þá var kostnaður vegna þunglyndislyfja, örvandi lyfja og lyfja við heilabilun samanlagt 8 prósent árið 2019 og 6,9 árið eftir.

Árið 2021 var birt rannsókn í Læknablaðinu þar sem kom fram að 58,5 prósent íbúa á hjúkrunarheimilum hefðu verið með geðsjúkdómagreiningu árið 2018 og 72,5 prósent hafi tekið geðlyf að staðaldri. Þetta hefði verið að aukast, sérstaklega notkun þunglyndislyfja.

Talið var að versnandi geðheilsa héldist í hendur við ástvinamissi, breytingu á félagslegu hlutverki og getu til athafna daglegs lífs. Hlutfallið væri þó hátt hér á landi í alþjóðlegum samanburði og óvíst væri með árangurinn af geðlyfjanotkun. Fara þyrfti því varlega í ávísanir geðlyfja.

Willum tekur undir þessi sjónarmið í svari sínu til Evu Sjafnar. „Ofangreindar rannsóknarniðurstöður sýna fram á mikilvægi þess að sérstaklega sé vandað til ávísana geðlyfja til aldraðra einstaklinga og að þær byggi á nákvæmri geðskoðun. Rétt er að ítreka að Embætti landlæknis hefur eftirlitshlutverk með allri heilbrigðisþjónustu, þar með talið geðlyfjanotkun,“ segir hann. Ekki standi þó til að endurskoða ávísanirnar eins og sakir standa.