Dr. Ólafur Þór Ævarsson, geðlæknir hjá Forvörnum ehf, segir að „blackout“ eða minnisleysi vegna áfengisdrykkju verði vegna alvarlegrar starfsemistruflunar í minnisstöðvum heilans. Ef slíkt ástand vari í einn eða fleiri sólarhringa sé það alvarlegt merki um tímabundna heilabilun.

Þetta kemur fram í innleggi sem Ólafur Þór setur á Facebook-síðu Forvarnir ehf. Innleggið setti hann inn í nótt en í gærkvöldi sagði þingmaðurinn Gunnar Bragi Sveinsson frá því á Hringbraut að hann hefði farið í 36 tíma blackout eftir drykkjuna á Klaustri.

Gunnar Bragði sagði orðrétt í viðtalinu: „Það sem situr einna verst í mér eftir þetta kvöld er í fyrsta lagi það að muna ekki neitt frá því að ég kem inn á bar­inn og einum og hálfum sól­ar­hring eft­ir. Það er algjört „blackout“. Algjört minnis­leysi. Ég hvorki veit hvað ég gerði, ég þurfti að hlusta á upp­tök­urn­ar, ég týndi föt­unum mínum þessa nótt. Það er algjört „blackout“. Það hefur ekki komið fyrir mig áður. Þannig að ég velti því fyrir mér hvað í fjand­anum gengur á þarna.”

Ólafur Þór segir í færslunni að ástæðurnar séu yfirleitt mjög mikil áfengisneysla eða langvinnt áfengisvandamál. Rifja má upp að á fyrstu stigum málsins sagði Gunnar Bragi að hann væri ekki viss um að hann drykki of mikið. Mögulega drykki hann of lítið.

Ólafur Þór segir að einstaklingur með þessi einkenni sé ekki vinnufær. „Ef hann gegndi ábyrgðarstarfi, sem t.d. flugstjóri, væri hann sendur í langt veikindaleyfi og kæmi ekki til vinnu fyrr en eftir ítarlegar rannsóknir og áfengismeðferð.“