Sprautu­nálar, saur og verk­færa­kassi fullur af þvagi voru meðal þess sem blöstu við starfs­mönnum frí­stunda­heimilis í Reykja­vík eftir sumar­frí. Sprautu­fíklar höfðu gert sig heim­komna í hús­næði frí­stunda­heimilisins á meðan það stóð autt.

„Svona að­koma er ekki eitt­hvað sem fær mann til að fyllast af reiði gegn þessum ein­stak­lingum heldur gegn kerfinu sem hefur brugðist þeim,“ segir starfs­maður, sem kýs að gæta nafn­leyndar, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hann hefur starfað á frí­stunda­heimilinu síðast­liðinn þrjú ár og segir það reglu­lega koma fyrir að ó­fag­lærðir ein­staklingar þurfi að hreinsa upp sprautu­nálar í hverfinu. „Það finnast oft sprautu­nálar á skóla­lóðinni og þar í kring,“ segir starfs­maðurinn sem týnir nálarnar ó­sjaldan upp.

Neyslurými nauðsynleg

„Mér finnst heldur mikið fyrir ó­fag­lærðan ein­stak­ling að þrífa blóð, 25 sprautu­nálar, saur og verk­færa­kassa fullan af þvagi eftir ein­stak­linga sem hafa hvorki öruggt rými né húsa­skjól til þess að sinna þörfum sínum.“ Hann kallar eftir því að komið verði upp neyslu­rýmum í Reykja­vík þar sem fíklar geti at­hafnað sig á öruggum stað fyrir sjálfa sig og aðra sem allra fyrst.

„Það er engin að­staða fyrir þetta fólk, þau eru að fara að gera þetta sama hvað og því furðu­legt að þeirri þörf sé ekki mætt.“ Hann kveðst sjálfur glaður bjóða sig fram til að starfa í neyslurýmum þegar þau opna til að leggja sitt af mörkum.

Starfsmenn þurftu að þrífa upp sprautunálar, sígarettustubbar og saur.
Mynd/Aðsend

Elur á ótta

„Það hefur sýnt sig annars staðar í heiminum þar sem búið er að af­glæpa­væða vímu­efni eða opna neyslu­rými líkt og í Sviss og Portúgal að það virkar.“ Það komi einnig í veg fyrir að börn, garð­yrkju­menn eða aðrir ófa­lærðir ein­staklingar þurfi að ganga fram á sprautu­nálar.

„Það læra öll börn að það sé bannað að snerta sprautu­nálar og maður vill auð­vitað helst ekki koma ná­lægt þessu eða snerta þetta.“ Óttinn við nálarnar geti þó heim­færst á ein­stak­lingana sem nota þær sem geri illt verra.

„Það jaðar­setur ein­stak­lingana enn­þá meira og eru þeir á­litnir vondir eða ó­geðs­legir þar sem þeir gætu stofnað öðrum í hættu.“ Sú væri þó ekki raunin ef kerfið hefði brugðist við þörf þessa hóps. „Við berum á­byrgð á þessum jaðar­setta hóp. Það er sam­fé­lagið okkar sem hefur jaðar­sett hann.“

Búið var míga í verkfærakassa frístundaheimilisins.
Mynd/Aðsend

Stjórnvöld of hæg

Ekki þarf að­eins að koma á fót neyslu­rýmum heldur einnig að breyta á­vana- og fíkni­efna­lögum að mati starfs­mannsins. „Þetta eru sjúk­lingar ekki af­brota­menn, það þarf að endur­skil­greina það í lögum.“

Síðast­liðinn maí var frum­varp Svan­dísar Svavars­dóttur, heil­brigðis­ráð­herra, um breytingu á lögum um á­vana- og fíkni­efni sam­þykkt á Al­þingi. Þar með gafst sveitar­fé­lögum heimild til að opna neyslu­rými en þar sem hægt yrði að hafa eftir­lit með sprautu­fíklum.

Ekki er út­lit fyrir að slík rými opni fyrr en á næsta ári í Reykja­vík.

Kerfið þarf að bregðast mun hraðar við og vera opnara fyrir nýjungum að mati starfs­mannsins. „Það er til dæmis alveg fá­rán­legt að Fröken Ragn­heiður hafi þurft að berjast fyrir því að fá að sinna starfi sínu þegar það liggur augum uppi að þau eru að sinna starfi sem þjónar öllu sam­fé­laginu.“ Sjálfur var hann sjálf­boða­liði hjá þjónustunni og ber þeim góða söguna. „Ég hvet alla til að styðja það verk­efni eins og hægt er.“