Fjall­göngu­maður sem gekk fram á fjár­sjóð á Mount Blanc, hæsta fjalli Vestur-Evrópu, árið 2013 hefur loks fengið hluta af á­góðanum greiddan.

Maðurinn gekk fram á lítinn kassa sem í voru meðal annars demantar og eins og heiðar­legum borgurum sæmir kom hann kassanum í hendur yfir­valda.

Nú, átta árum síðar, hefur maðurinn fengið helminginn af verð­mætunum greiddan út – upp­hæð sem nemur rúmum tíu milljónum króna.

Í frétt BBC kemur fram að kassinn hafi lík­lega verið í eigu ein­hvers sem var um borð í flug­vél Air India sem brot­lenti á fjallinu árið 1966. 117 létust í slysinu en vélin var á leið til London þegar slysið varð.

Önnur flug­vél brot­lenti á fjallinu árið 1950, en á undan­förnum árum hafa jarð­neskar leifar fólks, far­angur og brak komið upp á yfir­borðið. Frönsk yfir­völd eru sögð hafa reynt hvað þau gátu að komast að því hver átti demantana, en án árangurs.