Geitungar þykja almennt frekar óljúfir vorboðar. Þeir hafa þó lítið látið á sér kræla það sem af er sumri, eðlilega þar sem deila má um hvort sumarið sé yfirleitt komið sunnanlands. Leiðinlegt tíðarfarið hefur semsagt sína kosti.

„Það var rosalega lítið um þá í fyrra og mér sýnist þeir bara nánast ekkert vera á ferðinni núna,“ segir Guðmundur Óli Scheving, meindýraeyðir hjá Ráðtaki. „Það eru bara kuldinn, bleytan og allt þetta dæmi sem hjálpar rosalega til.“

Guðmundur Óli segir þó að eitthvað verði um geitunga þegar líður á sumarið. „Þeir eru búnir að vera að búa sér til bú og þótt þau séu kannski lítil þá eru þeir komnir af stað. Þeir eru samt ósköp ræfilslegir þeir fáu sem eru á ferli.“

Guðmundur Óli spáir smá hvelli í ágústbyrjun og að eitthvert ónæði verði af geitungunum fyrir þann tíma. Sérstaklega ef eitthvað rætist úr veðrinu. „Ef það gerir allt í einu rosalega gott veður þá verður allt tjúllað í einhverja daga en það er rosalega lítið af þeim miðað við það sem hefur verið þegar þetta var sem mest.“

Verkfræðingar frá náttúrunnar hendi

Þótt geitungar þyki almennt leiðinlegir er Guðmundi Óla hlýtt til þeirra og viðurkennir að hann hafi nokkrar áhyggjur af afkomu þeirra. Ekki á rekstrarlegum forsendum þó þar sem alltaf sé nóg af meindýrum, heldur virðingu fyrir þessum „snillingum.“

„Ég hef nú oft kallað þá „snillingana mína“ í þáttunum mínum á Útvarpi Sögu og þetta eru í raun og veru snillingar. Hvernig gætu þeir annars búið sér til þessi bú úr pappír þar sem kakan er nákvæmlega 360 gráður?

Og hvernig geta þeir búið til nákvæmlega sexstrend hólf fyrir eggin? Og hvernig fara þeir líka að því að geta gert ysta lagið á búinu vatnsþétt? Ég hef sagt að þetta eru bara verkfræðimenntuð dýr.“

Guðmundur Óli segist hafa nóg að gera þótt geitungarnir afli honum ekki mikilla viðskipta það sem af er sumri. „Öll þessi útidýr eru alveg þremur til fjórum vikum á eftir áætlun en það er nóg að gera innandyra.“

Og sem fyrr er það votviðrið sem ræður mestu. „Það hefur verið dálítið mikið um silfurskottur og rakapöddur. Það er búin að vera væta á hverjum einasta degi síðasta mánuð þannig að rakapöddurnar dafna vel.“

En fær það ekkert á Guðmund Óla að farga „snillingunum“ sínum í stórum stíl?

„Nei, það gerir það nú ekki en ég ber samt óttablandna virðingu fyrir þeim þótt ég hafi aldrei verið stunginn í öll þessi fimmtán ár sem ég hef verið í þessu. Aldrei.

„Ég passa mig náttúrlega á þeim og ég hef líka sagt við fólk að þetta eru nú ekki alveg dýr til þess að reyna að vera að klappa.“