Guðmundur Björnsson, rekstrarstjóri meindýravarna Reykjavíkurborgar, telur geitunga hafa aukist um yfir 200 prósent frá því í fyrra. „Menn voru búnir að afskrifa geitunginn eftir slæmt ár í fyrra en fram að deginum í dag hafa þeir verið margfalt fleiri en síðustu ár.“

Mikið af drottningum í sólinni

„Veðrið spilar mikið inn í fjölgunina, það var náttúrulega minna í fyrra út af allri þessari rigningu.“ Guðmundur telur að með blíðviðri sumarsins hafi geitungum vaxið fiskur um hrygg. „Þau bú sem hafa komist á legg í sumar hafa greinilega verið ansi mörg.“

Hann segir að fá geitungabú þurfi til að koma upp miklu magni af drottningum. „Það geta kannski komið nokkrir tugir eða nokkur hundruð úr einhverjum búum sem hefur gífurleg áhrif,“ bætir Guðmundur við.

Stærðarinnar geitungabú upp í tré.
Fréttablaðið/Valgarður

Sárt að vera stunginn

Guðmundur segir geitunga ekki hika við stinga fólk sem ógnar búum þeirra. „Þeir geta stungið hvenær sem er, þú getur verið að klippa hjá þér trén eða gengið út á sólpall og þá myndast titringur í búið sem setur allt í gang.

Aðspurður telur Guðmundur líklegt að flestir meindýraeyðir hafi verið stungnir oftar en einu sinni. „Það er sárt en svo heldur maður bara áfram“ segir hann og virðist lítið kippa sér upp við það.

Stinga ekki af illkvittni

Guðmundur tekur þó fram að geitungar stingi ekki að ástæðulausu. „Þeir fljúga ekkert um og leita af fólki til þess að stinga, þetta gerist mest í kringum búin sjálf sérstaklega ef það er eitthvað verið að abbast upp á þá og farið nálægt búunum.“

Hann ráðleggur fólk sem verður vart við bú að fara varlega í að fjarlægja þau eða hringja í meindýraeyði.