Norðmenn hafa uppgötvað geislavirkan leka í Noregshafi þar sem geislunarstig mælist allt að 800 þúsund stigum hærra en eðlilegt má teljast. Lekinn kemur frá rússnesku kafbátsflaki sem hefur legið á botni sjávar síðan 1989 eftir að eldur um borð í kafbátnum varð 42 rússneskum skipverjum að bana.

Sýni úr sjónum við kafbátinn sýndi þannig að geislavirka efnið sesín lekur frá bátnum og út í sjóinn frá loftræstingarkerfi hans. Vísindamenn segja aðstæðurnar þó ekki til að hafa áhyggjur af, heimskautasjórinn þynni efnið út á skömmum tíma. Þá er flak kafbátsins á miklu dýpi, rúmlega 1600 metra, og er fátt um fiska á svæðinu.

Þetta uppgötvaðist í fyrsta skipti sem Norðmenn senda fjarstýrt rannsóknartæki á svæðið, síðasta sunnudag. Kafbáturinn, sem bar heitið Komsomolets eða K-278, sökk þar fyrir þrjátíu árum en um borð í honum voru tvö kjarnorkutundurskeyti með plútonkjarnaoddum.

Rússar höfðu áður sent mannaðan kafbát til að rannsaka svæðið og tóku þá einnig eftir geislavirkni á sama svæði. „Við tókum vatnssýni úr loftræstikerfi bátsins vegna þess að Rússarnir höfðu áður fundið geislavirkni þar,“ sagði Hilde Elise Heldal, sem fór fyrir rannsókninni, í samtali við BBC.

„Það kom okkur því ekki á óvart að komast að þessari miklu geislun. Þetta var vissulega hærra stig en eðlilegt þykir í sjónum en þó ekkert til að hafa áhyggjur af,“ hélt hún áfram. Þá hafa Norðmenn og Rússar vaktað hafsvæðið í kringum kafbátinn síðan að slysið átti sér stað.