Þessi hugmynd hefur blundað í mér í smá tíma en síðustu sumur hafa mögulegir ferðafélagar aldrei verið lausir á sama tíma. Út af faraldrinum voru allir klárir í ár og þess vegna ákváðum við að kýla á þetta,“ segir Geir Gunnarsson meðlimur Geirfuglanna, sem luku á dögunum því afreki að hjóla yfir allt Ísland, horn í horn.

„Við byrjuðum á Reykjanestánni og hjóluðum síðan á ská yfir allt landið og enduðum yst á Langanesi. Ég veit ekki hvort að þetta hafi verið gert áður á hjóli og það væri áhugavert ef einhver getur leiðrétt okkur með það,“ segir Geir. Ásamt honum hjóluðu tveir bræður hans, Magnús og Pétur Már Gunnarssynir, með honum, sem og vinur hans Kristján Guðni Bjarnason sem slóst með með í för.

Horn_i_Horn.jpg

Leiðin sem var hjóluð

„Við erum vanir hjólamenn og höfum talsverða reynslu af útivist og fjallgöngum. Þannig að við höfðum góðan grunn og höfðum einnig undirbúið okkur vel,“ segir Geir.

Alls tók leiðangurinn tólf daga og reyndi töluvert á, eins og gefur að skilja, enda einsettu leiðangursmenn sér að hjóla sem minnst á tilbúnum vegum, heldur frekar um fjöll og firnindi. „Það kom okkur í opna skjöldu að fyrsta dagleiðin á Reykjanesinu var ein sú erfiðasta. Við lentum í miklu roki og vorum ansi framlágir eftir þann dag. En á móti vorum við heppnir með veður á hálendinu. Fyrir fram hafði maður mestar áhyggjur af nokkrum dagleiðum þar,“ segir Geir.

Eftir fyrsta daginn gistu þeir heima hjá sér á höfuðborgarsvæðinu, en það sem eftir var ferðarinnar fylgdi þeim trússbíll. „Það var mikill lúxus. Bjarni Sighvatsson, faðir Kristjáns Guðna, keyrði bílinn og þar var nóg af vistum og búnaði auk þess sem við gátum tekið tjöld með.“

Ferðin gekk að mestu stóráfallalaust þó að einstaka fall eða aumir vöðvar og liðir hafi stundum valdið tímabundnum vandræðum fyrir einstaka Geirfugla. Fjórmenningarnir luku því allir leiðangrinum erfiða.

Geirfuglarnir_naktir.jpg

Leiðangursmenn nýttu frelsið á hálendinu vel

„Maður var furðu góður í skrokknum á meðan á þessu stóð. Þetta er gríðarlegt álag og brennsla, en það er eins og líkaminn venjist því fljótt eða slökkvi á sársaukaskynjurunum,“ segir Geir. Hann segist helst hafa fundið fyrir verkjum í rassinum, enda talsvert álagssvæði í langri hjólaferð, en skellurinn hafi eiginlega komið þegar púlinu var lokið.

„Daginn eftir, þegar ég vaknaði upp í heitu rúmi þá var ég alveg ónýtur. Skrokkurinn er bara flak. En ég vona að það jafni sig fljótt og vel,“ segir Geir og hlær.