Íbúi í hjól­hýsa­byggðinni í Laugar­dalnum fær ekki að hafa lög­heimili heima hjá sér og er því í raun heimilis­laus sam­kvæmt kerfinu. Hún segir stjórn­völd gas­lýsa al­menning til að telja fólki trú um að það sé búið að gera mikið fyrir ör­yrkja.

Geir­dís Hanna Kristjáns­dóttir er 47 ára gömul og er ör­yrki. Hún hefur búið í hjól­hýsa­byggðinni í Laugar­dalnum síðast­liðin tvö og hálft ár í hjól­hýsi sem hún á sjálf. Í hjól­hýsa­byggðinni búa fimm­tán ein­staklingar í tíu mis­munandi tækjum.

„Ég er ör­yrki með tekjur frá Trygginga­stofnun og er að fá 225 þúsund út­borgað þaðan á mánuði. Þannig að ég er ekki einu sinni með laun til þess að vera á leigu­markaði vegna þess að ég get ekki staðið undir mánaðar­legum af­borgunum af leigu,“ segir Geir­dís.

Allan þann tíma sem Geir­dís hefur búið í Laugar­dalnum hefur henni ekki verið leyft að hafa lög­heimili á sínu eigin heimili, en ekki er leyfi­legt að hafa lög­heimili í hjól­hýsum. „Ég bý í mínu eigin hús­næði og engum háð nema sjálfri mér,“ segir hún.

„Það eina sem ég er háð er þeim samningum sem Reykja­víkur­borg nær við Far­fugla um okkar veru á svæðinu,“ segir Geir­dís en Far­fuglar sjá um rekstur tjald­stæðisins í Laugar­dal, þar sem hjól­hýsa­byggðin er stað­sett.

„Þess utan hefur það valdið okkur öllum kvíða hvernig staðan er búin að vera og hversu erfitt það hefur verið að ná góðri sam­vinnu. Ef horft er fram hjá því, þá líður mér mjög vel,“ segir hún.

Fimmtán manns eru búsettir í tíu tækjum í hjólhýsabyggðinni í Laugardal.
Mynd/Stefán

Geir­dís er skráð sem „ó­stað­sett í hús“ vegna þess að hún fær ekki að hafa lög­heimili sitt heima hjá sér og sam­kvæmt kerfinu er hún heimilis­laus. Það felur í sér ýmsar skerðingar. „Ég fæ þar af leiðandi ekki það sem heitir heimilis­upp­bót frá Trygginga­stofnun og sam­kvæmt nýjustu tölum, þá er heimilis­upp­bót um 700 þúsund á ári,“ segir hún.

Heimilis­upp­bótin er hugsuð fyrir fólk sem er á ör­orku og býr eitt. Geir­dís segist tikk­a í öll þau box, nema að hún er hvergi með skráð lög­heimili og fær því ekki þessa upp­bót.

„Ef ég væri að leigja, þá myndi ég bara drukkna í öðrum kostnaði. Fengi ég þetta núna þar sem ég bý, þá myndi það strax létta undir,“ segir Geir­dís.

„Þó ég „eigi hvergi heima“ þá á ég samt heimili og ég er virkur sam­fé­lags­þegn. Ég hef reynt að fara á vinnu­markaðinn en mér hefur verið refsað harka­lega fyrir það, vegna þess að skerðingar kerfisins eru svo miklar,“ segir Geir­dís.

Hún segir ýmsar skerðingar fylgja því að vera með lítinn pening á milli handanna í hverjum mánuði. „Ég hef ekki farið til tann­læknis í þrett­án ár vegna þess að ég hef ekki efni á því. Ég fer kannski einu sinni á fimm ára fresti á stofu til þess að láta klippa á mér hárið, annars á ég fína græju sem ég renni sjálf í gegnum hausinn minn,“ segir hún og bætir við að fyrir henni sé þetta lúxus.

Þá nefnir Geir­dís einnig bíó, tón­leika og leik­hús meðal annars. „Þetta er munaðar­vara fyrir okkur.“ Hún segir þetta geta haft fé­lags­legar af­leiðingar í för með sér og að fólk geti ein­angrast vegna þessa.

Sjálf er Geir­dís dug­leg að taka þátt í fé­lags­starfi en hún segist gera það til þess að halda sér gangandi. „Ég er í námi til viður­kenningar bókara. Ég er að sinna sjálf­boða­starfi hjá Pepp, gras­rót fólks í fá­tækt, og svo stunda ég keilu sem keppnis­í­þrótt. Það er svona eitt og annað sem ég er að gera.“

Geir­dís segir stjórn­völd gas­lýsa á­kveðna hópa sam­fé­lagsins. „Það er verið að gas­lýsa okkur, það er verið að reyna að telja okkur trú um að það sé búið að gera svo vel við ör­yrkja, en það er bara ekki rétt,“ segir hún.