Geir Sveins­son verður næsti bæjar­stjóri Hvera­gerðis­bæjar, en meiri­hluti bæjar­stjórnar mun leggja fram til­lögu þess efnis á næsta bæjar­stjórnar­fundi. Þetta kemur fram í fréttatil­kynningu á heima­síðu Hvera­gerðis­bæjar.

„Geir er Ís­lendingum flestum kunnur sem einn af sterkustu lands­liðs­mönnum Ís­lands í hand­bolta, en hann þjálfaði ís­lenska lands­liðið um tíma og hefur sinnt þjálfun og stjórnun í Þýska­landi síðustu ár,“ segir í til­kynningunni.

Staða bæjar­stjóra Hvera­gerðis­bæjar var aug­lýst þann 16. júní síðast­liðinn og rann um­sóknar­frestur út 30. júní. Alls sóttu tuttugu og þrír um stöðuna en fjórir drógu um­sókn sína til baka.

Sandra Sigurðar­dóttir, for­maður bæjar­ráðs, segir valið hafa verið erfitt. Margar um­sóknir hafi verið mjög góðar.

„Við erum af­skap­lega á­nægð með ráðninguna. Að öllum um­sækj­endum ó­löstuðum þá hefur Geir þá kosti sem við leituðum í fari bæjar­stjóra. Geir hefur sýnt það og sannað að hann er leið­togi, mark­miða­drifinn, en um­fram allt hefur hann sterka sýn og mikinn metnað,“ segir Sandra.

Þá segist Geir sjálfur þakk­látur nýjum meiri­hluta Hvera­gerðis­bæjar fyrir það traust og tæki­færi sem honum hafi nú verið sýnt.

„Ég mun í góðu sam­starfi við alla bæjar­full­trúa og starfs­fólk Hvera­gerðis­bæjar leggja mig allan fram við að gera góðan bæ enn betri,“ segir Geir Sveins­son, verðandi bæjar­stjóri í Hvera­gerði.

Ráðningar­samningur Geirs tekur form­lega gildi þegar hann hefur verið stað­festur á næsta bæjar­ráðs­fundi og í kjöl­farið birtur opin­ber­lega. Á­ætlað er að Geir hefji störf í byrjun ágúst.