Umsókn Íslands um aðild að Geimvísindastofnun Evrópu hefur velkst um í kerfinu í hartnær fimm ár og er komin í hendur mennta- og menningarmálaráðuneytisins frá utanríkisráðuneytinu.

Þingmaður Samfylkingarinnar, Guðjón S. Brjánsson, spurði Guðlaug Þór Þórðarson utanríkisráðherra hvað tefði umsóknina.

Lilju Dögg Alfreðsdóttir, sem þá var utanríkisráðherra, var falið að sækja um aðild að Geimvísindastofnuninni í október árið 2016.

Níu mánuðum síðar var óskað eftir tilnefningum í starfshóp um aðild Íslands að stofnuninni og fyrsti fundur fór fram í desember 2017.

Í febrúar 2019 var svo fundur með fulltrúum Geimvísindastofnunar Evrópu.

Niðurstaðan var að stofnunin sendi stjórnvöldum vegvísi að því hvernig undirbúa skyldi svonefnt fyrsta stigs samstarf.

Vegvísirinn barst í febrúar 2019 og 11. júní lá fyrir samþykki á næsta skrefi í ferlinu í samræmi við vegvísinn, sem fólst í því að ráðherra málefna geimsins ritaði stofnuninni bréf þar sem leitast væri eftir að hefja viðræður um aðild.

Þá kom í ljós að starfsemi stofnunarinnar er á sviði vísinda, menntamála og rannsókna og var málið lagt í hendur mennta- og menningarmálaráðuneytis 7. apríl 2020.