Geimskot James Webb stærsta geimsjónauka sem um getur nú fyrir stundur, tókst vel. Mikil eftirvænting ríkti meðal þeirra þúsunda eða milljóna manna sem fylgdust með geimskotinu. Eldflaug með geimsjónaukanum innanborðs var skotið á loft frá Frönsku Gvæjana í Suður-Ameríku. Webb sjónaukinn mun leysa Hubble sjónaukann af hólmi.

Franska Gvæjana er í miðjum Amazon frumskóginum, mjög nálægt miðbaugi. Veðurskilyrði þar nú um hádegi voru mjög góð, en fresta hafði þurft geimskotinu um einn dag vegna veðurs. Eldflaugin ferðast með um 8000 kílómetra hraða á klukkustund.

Markmið Webb sjónaukans verður að reyna að sýna fyrstu stjörnuna og vetrarbrautirnar sem mynduðust í alheiminum og þar með að horfa milljarða ára aftur í tímann. Webb mun einnig rannsaka andrúmsloft fjarlægra reikistjarna og leita að lofttegundum sem gætu gefið til kynna að líf sé einhvers staðar annars staðar í alheiminum, en á Jörðinni.

HInum risastóra sjónauka hefur í raun verið pakkað saman þannig að hann komist fyrir í eldflauginni sem flytur hann út í geim. Síðan verður sjónaukanum sleppt og hann mun ferðast fyrir eigin vélarafli á áfangastað. Þegar þangað er komið tekur við flókið ferli uppsetningar, sem allt verður að fara fram hnökralaust til þess að sjónaukinn virki í heild sinni.

James Webb sjónaukinn er nefndur í höfuðið á James Webb sem var einn af arkitektum Apollo áætlunarinnar. Það eru geimvísindastofnanir Bandaríkjanna, Evrópu og Kanada, sem standa saman að þessu verkefni, sem nefnt hefur verið mesta stórvirki vísindanna til þessa.