Íslenski geimfarinn Bjarni Valdimar Tryggvason er látinn, 76 ára að aldri. Frá þessu greinir kanadíski geimfarinn Chris Hadfield á Twitter síðu sinni. Í færslu sinn segist Hadfield hafa í dag kvatt góðan vin, sem hafi verið allt í senn brautryðjandi í geimflugi, snjall verkfræðingur, stoltur faðir, uppfinningamaður og reynsluflugmaður.

Bjarni fæddist í Reykjavík árið 1945 en flutti ungur með fjölskyldu sinni til Vancouver í Kanada. Hann menntaði sig eðlisverkfræði við University British Columbia. Hann sinnti rannsóknum og kennslu á sviði stærðfræði, varmafræði og straumfræði, svo eitthvað sé nefnt.

Árið 1997 tók Bjarni þátt í sendiförinni STS-85, á vegum Geimferðastofnunar Bandaríkjanna, NASA. Hann varði alls tólf dögum í geimnum og varð jafnframt sá fyrsti og hingað til eini íslenski geimfarinn.