Marc Heem­skerk, geimjarð­fræðingur og einn vísinda­manna rann­sóknar­hópsins EuroMoon­Mars, stóð fyrir geim­fara­þjálfun í Stefáns­helli frá lokum júlí fram í ágúst.

Verk­efnið er hluti af hí­býla­hönnun fyrir tunglið og Mars en Ís­land þótti heppi­legur staður fyrir til­raunina því hér er að finna helli sem á að svipa til þeirra sem eru á tunglinu. Vegna hættu á að verða fyrir loft­steinum og vegna mikillar geislunar er ekki hægt að vera á yfir­borði tunglsins í lengri tíma, því væru hellarnir á tunglinu á­kjósan­legri fyrir hí­býli og rann­sóknar­stöðvar.

Marc segir að steinarnir í hellinum, jafn­vel efna­sam­setning þeirra, sé mjög líkt því sem er í steinum á tunglinu. Hann segir þó enn lítið vitað um hellana á tunglinu og hvernig þeir líti út og því sé erfitt að vita hvernig væri að vera inni í þeim til lengri tíma.

„Við fórum í Stefáns­helli til að at­huga hvort það væri hægt að búa í hellinum og hvaða vanda­mál gætu komið upp. Þannig var þetta mjög „beisik“ fyrsta skoðun til að at­huga hvort mann­fólk geti búið í hellinum án þess að verða bilað og drepa hvert annað. Það er óska­staða þegar fólk er í geimnum,“ segir Marc og hlær.

Hópurinn sem tók þátt í til­rauninni var nokkuð al­þjóð­legur en þau komu alls frá 17 löndum um allan heim. Geim­fararnir komu frá Líbanon, Hollandi, Ís­landi og Sviss og í fyrsti ferðinni frá Pól­landi, Austur­ríki og Skot­landi.

„Það var gott að hópurinn var fjöl­þjóð­legur en hafði einnig nokkur vanda­mál í för með sér eins og með sam­skipti. Við lærðum af þessu að tryggja betur að allir geti talað sama tungu­mál svo að ekkert mis­skiljist,“ segir Marc.

Marc er hér fyrir miðju í bláa bolnum að aðstoða geimfarana á vettvangi.
Mynd/EuroMoonMars

Hand­gerðir spænskir búningar

Hann segir að til­raunin hafi gengið nokkuð vel og sam­kvæmt á­ætlun.

„En við áttum í vanda­málum tengdum Co­vid. Við ætluðum að vera hér í maí og júní en vegna þess frá hversu mörgum löndum fólk var að koma þá var það ekki hægt á þeim tíma,“ segir Marc.

Hann segir að Co­vid hafi einnig haft á­hrif á flutning geimbúninganna en þeir bárust rétt í tæka tíð.

„Þeir eru hand­gerðir á Spáni. Smá­at­riðin eru mikil og búningarnir eru mjög raun­veru­legir og líta mjög vel út á mynd. En teymið á Spáni gat að­eins byrjað að vinna í búningunum í maí og það þýddi að það kláraði að­eins tveimur vikum áður en við hófumst handa hér. Þá átti eftir að senda þá til landsins og við fengum þá að­eins í hendurnar tveimur og hálfum degi áður en við byrjuðum sem þýddi að við höfðum lítinn tíma til að æfa okkur í að komast í þá og gera breytingar á þeim.“

Vél­menni prófuðu fyrst

Marc segir að skipu­lagning til­raunarinnar hafi verið víð­tæk og í miklu sam­ráði við yfir­völd á Ís­landi. Þau hafi viljað gæta að öryggi þátt­tak­enda auk þess sem þau vildu gæta þess að skaða ekki náttúruna. Þau notuðu vél­menni til að að­stoða við til­raunina.
„Það hefur líka verið gert á tunglinu því það er alltaf spurning hvort það sé rétt­mætt að senda mann­eskjur á myrkt yfir­borð tunglsins þar sem lítið er vitað um að­stæður og hvort þær komist til baka. Okkur, mann­fólkinu, líður því oft betur með að prófa fyrst með vél­menni. Ef þau festast er annað hvort hægt að reyna að leysa þau og ef ekki þá getur maður frekar sætt sig við að tapa einni milljón en að tapa manns­lífi.“
Hann segir að ein helsta á­skorunin við verk­efnið séu að­stæðurnar og að­búnaðurinn. Geimbúningarnir sjálfir eru um tvö kíló og þegar geim­farinn er með hjálminn á sér þá getur hann ekki séð til hliða eða upp, heldur að­eins beint. Þá eru þeir einnig með hanska sem hindrar fín­hreyfingar.

Ætli það sé svona á tunglinu?
Mynd/EuroMoonMars

Bak­verkir í nokkra daga

„Þau voru með bak­verki og verki í hálsinum í nokkra daga þannig það er eitt­hvað sem þarf að bæta í geimbúningum al­mennt. Þeir eru í raun nokkurs konar geim­skip en ef fólk vill vera lengur í geimnum þarf það að geta verið í búningunum til lengri tíma og þá þarf að skoða hvernig geim­fararnir gætu verið fljótari að komast í búninginn. Það er alltaf hætta á því, ef það er of erfitt, að þeir hætti að nenna að fara í búninginn og loki sig af inni í hellinum. Það getur verið þeim mjög hættu­legt auk þess sem tækin og tólin þurfa við­hald og ef þarf að vera snar í snúningum þá getur það hamlað geim­förunum og jafn­vel verið lífs­hættu­legt, þeim sjálfum og öðrum sem eru þar með þeim.“

Stefánshellir er einn lengsti hellir landsins og er um 3.500 metrar.
Mynd/EuroMoonMars

Settu stöðina í vit­lausan enda

Hann segir að í næstu til­raunum langi þau að nota vél­mennin meira í sam­ráði við geim­farana. Geim­fararnir fóru í raun ekki inn í hellinn fyrr en í til­rauninni sjálfri heldur fengu þeir myndir, mynd­bönd og fengu að prófa sig á­fram áður en þeir svo fóru og áttu að setja upp geim­stöðina á svæðinu.

„Ég hélt að við hefðum gefið þeim nokkuð góðar leið­beiningar en þau settu stöðina í vit­lausan enda. Það var því nokkuð fyndið að sjá hvernig mis­munandi teymi komust að ó­líkum lausnum með stað­setningu stöðvarinnar.“

Einn tungl­dagur sem mánuður

Hann segir að næstu skref verk­efnisins séu hluti af Artemis-verk­efninu sem felist í því að láta geim­fara búa á tunglinu í einn heilan dag.
„Einn tungl­dagur er einn mánuður í okkar tíma. Það eru þá fjór­tán dagar í birtu og fjór­tán dagar í myrkri og því er hug­myndin að fram­kvæma fyrsta hluta til­raunarinnar sem væri þá í fjór­tán daga birtu. Við erum núna að reyna að fjár­magna það og eigum von á því að geta komið aftur til að gera þetta á Ís­landi á næsta eða þar­næsta ári.“

Verkefnið krafðist mikillar skipulagningar.
Mynd/EuroMoonMars