Marc Heemskerk, geimjarðfræðingur og einn vísindamanna rannsóknarhópsins EuroMoonMars, stóð fyrir geimfaraþjálfun í Stefánshelli frá lokum júlí fram í ágúst.
Verkefnið er hluti af híbýlahönnun fyrir tunglið og Mars en Ísland þótti heppilegur staður fyrir tilraunina því hér er að finna helli sem á að svipa til þeirra sem eru á tunglinu. Vegna hættu á að verða fyrir loftsteinum og vegna mikillar geislunar er ekki hægt að vera á yfirborði tunglsins í lengri tíma, því væru hellarnir á tunglinu ákjósanlegri fyrir híbýli og rannsóknarstöðvar.
Marc segir að steinarnir í hellinum, jafnvel efnasamsetning þeirra, sé mjög líkt því sem er í steinum á tunglinu. Hann segir þó enn lítið vitað um hellana á tunglinu og hvernig þeir líti út og því sé erfitt að vita hvernig væri að vera inni í þeim til lengri tíma.
„Við fórum í Stefánshelli til að athuga hvort það væri hægt að búa í hellinum og hvaða vandamál gætu komið upp. Þannig var þetta mjög „beisik“ fyrsta skoðun til að athuga hvort mannfólk geti búið í hellinum án þess að verða bilað og drepa hvert annað. Það er óskastaða þegar fólk er í geimnum,“ segir Marc og hlær.
Hópurinn sem tók þátt í tilrauninni var nokkuð alþjóðlegur en þau komu alls frá 17 löndum um allan heim. Geimfararnir komu frá Líbanon, Hollandi, Íslandi og Sviss og í fyrsti ferðinni frá Póllandi, Austurríki og Skotlandi.
„Það var gott að hópurinn var fjölþjóðlegur en hafði einnig nokkur vandamál í för með sér eins og með samskipti. Við lærðum af þessu að tryggja betur að allir geti talað sama tungumál svo að ekkert misskiljist,“ segir Marc.

Handgerðir spænskir búningar
Hann segir að tilraunin hafi gengið nokkuð vel og samkvæmt áætlun.
„En við áttum í vandamálum tengdum Covid. Við ætluðum að vera hér í maí og júní en vegna þess frá hversu mörgum löndum fólk var að koma þá var það ekki hægt á þeim tíma,“ segir Marc.
Hann segir að Covid hafi einnig haft áhrif á flutning geimbúninganna en þeir bárust rétt í tæka tíð.
„Þeir eru handgerðir á Spáni. Smáatriðin eru mikil og búningarnir eru mjög raunverulegir og líta mjög vel út á mynd. En teymið á Spáni gat aðeins byrjað að vinna í búningunum í maí og það þýddi að það kláraði aðeins tveimur vikum áður en við hófumst handa hér. Þá átti eftir að senda þá til landsins og við fengum þá aðeins í hendurnar tveimur og hálfum degi áður en við byrjuðum sem þýddi að við höfðum lítinn tíma til að æfa okkur í að komast í þá og gera breytingar á þeim.“
Vélmenni prófuðu fyrst
Marc segir að skipulagning tilraunarinnar hafi verið víðtæk og í miklu samráði við yfirvöld á Íslandi. Þau hafi viljað gæta að öryggi þátttakenda auk þess sem þau vildu gæta þess að skaða ekki náttúruna. Þau notuðu vélmenni til að aðstoða við tilraunina.
„Það hefur líka verið gert á tunglinu því það er alltaf spurning hvort það sé réttmætt að senda manneskjur á myrkt yfirborð tunglsins þar sem lítið er vitað um aðstæður og hvort þær komist til baka. Okkur, mannfólkinu, líður því oft betur með að prófa fyrst með vélmenni. Ef þau festast er annað hvort hægt að reyna að leysa þau og ef ekki þá getur maður frekar sætt sig við að tapa einni milljón en að tapa mannslífi.“
Hann segir að ein helsta áskorunin við verkefnið séu aðstæðurnar og aðbúnaðurinn. Geimbúningarnir sjálfir eru um tvö kíló og þegar geimfarinn er með hjálminn á sér þá getur hann ekki séð til hliða eða upp, heldur aðeins beint. Þá eru þeir einnig með hanska sem hindrar fínhreyfingar.

Bakverkir í nokkra daga
„Þau voru með bakverki og verki í hálsinum í nokkra daga þannig það er eitthvað sem þarf að bæta í geimbúningum almennt. Þeir eru í raun nokkurs konar geimskip en ef fólk vill vera lengur í geimnum þarf það að geta verið í búningunum til lengri tíma og þá þarf að skoða hvernig geimfararnir gætu verið fljótari að komast í búninginn. Það er alltaf hætta á því, ef það er of erfitt, að þeir hætti að nenna að fara í búninginn og loki sig af inni í hellinum. Það getur verið þeim mjög hættulegt auk þess sem tækin og tólin þurfa viðhald og ef þarf að vera snar í snúningum þá getur það hamlað geimförunum og jafnvel verið lífshættulegt, þeim sjálfum og öðrum sem eru þar með þeim.“

Settu stöðina í vitlausan enda
Hann segir að í næstu tilraunum langi þau að nota vélmennin meira í samráði við geimfarana. Geimfararnir fóru í raun ekki inn í hellinn fyrr en í tilrauninni sjálfri heldur fengu þeir myndir, myndbönd og fengu að prófa sig áfram áður en þeir svo fóru og áttu að setja upp geimstöðina á svæðinu.
„Ég hélt að við hefðum gefið þeim nokkuð góðar leiðbeiningar en þau settu stöðina í vitlausan enda. Það var því nokkuð fyndið að sjá hvernig mismunandi teymi komust að ólíkum lausnum með staðsetningu stöðvarinnar.“
Einn tungldagur sem mánuður
Hann segir að næstu skref verkefnisins séu hluti af Artemis-verkefninu sem felist í því að láta geimfara búa á tunglinu í einn heilan dag.
„Einn tungldagur er einn mánuður í okkar tíma. Það eru þá fjórtán dagar í birtu og fjórtán dagar í myrkri og því er hugmyndin að framkvæma fyrsta hluta tilraunarinnar sem væri þá í fjórtán daga birtu. Við erum núna að reyna að fjármagna það og eigum von á því að geta komið aftur til að gera þetta á Íslandi á næsta eða þarnæsta ári.“
