Leikarinn Gísli Örn Garðarsson ætlar að gefa allar tekjur sínar af leiksýningunni Ég hleyp til góðgerðarmála. Ég hleyp er danskt leikrit eftir Line Mörkeby, byggt á sannri sögu um barnsmissi. Upphaflega átti að frumsýna verkið í Borgarleikhúsinu eftir mánuð en var því frestað fram í april. Gísli Örn hafði sjálfur frumkvæði að uppsetningunni ásamt Kristínu Eysteinsdóttur, leikhússtjóra.

„Þetta er saga um danskan blaðamann sem missir dóttur sína. Sex tímum eftir að hún er látin var hann farinn út að hlaupa, eitthvað sem hann hafði aldrei gert áður. Hann skrifaði síðan bók um hvernig hann tókst á við lífið í hlaupunum,“ segir Gísli Örn. „Þetta verður áskorun, bæði af því að viðfangsefnið er viðkvæmt og af því að þetta er líkamlega erfitt eins og við Baldvin Z, leikstjóri ætlum að vinna þetta.“

Allar tekjur Gísla Arnar af leikritinu munu renna til góðgerðasamtakanna Nýrrar dögunar, Bergsins, Ljónshjarta og Dropans. „Mér fannst ekki rétt að þiggja laun við að leika þetta efni og fara í þetta ferðalag, svo við Kristín fundum útfærslu á þessu þar sem niðurstaðan er þessi. Fólk er oft að hlaupa til að styrkja hitt og þetta og ég ákvað að þetta yrði mitt framlag í þá veru. Mér finnst fátt leiðinlegra en að hlaupa, svo þetta er kannski ákveðin hvatning fyrir sjálfan mig í leiðinni, en ég er samt ekki hlaupandi alla sýninguna, þó það sé vissulega stór þáttur. Að öðru leiti er þetta sýning eins og hver önnur í Vesturports andanum og komin í fulla sölu í áskriftarkortum borgarleikhússin. Það sem hefði farið í minn hlut mun renna til þessarra samtaka,“ segir hann.

Gísli Örn mun hlaupa á bilinu 10 til 12 kílómetra á hverri sýningu en viðurkennir að vera seinn að byrja æfingar. „Ég tók 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu og er að bíða eftir að hnén jafni sig svo ég geti byrjað aftur að æfa á skynsamlegum hraða. Það verður ekki hlaupið að þessu eins og einhver sagði“