Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, gefur lítið fyrir ásakanir óháða þingmannsins Karls Gauta Hjaltasonar, sem áður var flokksfélagi hennar en líkt og fram hefur komið sakaði þingmaðurinn Ingu í dag um óvandaða meðferð fjármuna flokksins. 

Gagnrýndi hann meðal annars að Inga, sem formaður flokksins, sitji einnig yfir fjárreiðum hans og sé þannig prókúruhafi og gjaldkeri flokksins og nýtti þannig stöðu sína til að greiða fjölskyldumeðlimum sínum laun. „Þá get ég heldur ekki sætt mig við að opinberu fé sé varið til launagreiðslna í þágu nánustu fjölskyldumeðlima stjórnmálaleiðtoga.“

Sjá einnig: Sakar Ingu um að eyða opinberu fé í laun fjölskyldu

„Mér finnst þetta mest lýsa höf­undi og hans hug­sjón gagn­vart Flokki fólksins. Þetta virkar á mig sem særindi og hefndargirni,“ segir Inga meðal annars í viðtali við mbl.is. Hún segir að mikið af starfi flokksins hafi verið unnið í sjálfboðaliðastarfi og að Karl og Ólafur Ísleifsson, sem nú er óháður þingmaður ásamt Karli, hafi aldrei verið sáttir við að Inga „sæti á hverri krónu eins og ormur á gulli.“

Þá segist Inga harma að alið sé á tortryggni í garð starfa flokksins með þessum hætti en flokkur hennar hafi ekkert að fela. Sonur hennar hafi unnið sjálfboðavinnu fyrir flokkinn á síðasta ári en sé nú starfsmaður flokksins, en það hafi ekki verið ákveðið af henni, heldur kjördæmaráði og stjórn flokksins.

„Ég greiddi ekki atkvæði,“ segir Inga og segir flokkinn þurfa að standa af sér holskeflu fólks sem vilji grafa undan flokknum og skemma fyrir honum.