Donald Trump, Bandaríkjaforseti, segir að óvinir sínir sem hafi gert „illa“ og „sviksamlega hluti“ verði grandskoðaðir eftir að í ljós kom að ekkert bendi til þess að hann hafi sjálfur átt í samráði við Rússa sem að höfðu áhrif á forsetakosningarnar árið 2016, að því er fram kemur á vef BBC.

Ummælin lét forsetinn falla á fundi með Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, en hann segir meðal annars að „enginn forseti“ hafi átt að þurfa að ganga í gegnum það sama og hann. Mueller rannsakaði undanfarin tvö ár ásakanir á hendur kosningateymis Trump vegna tengsla við afskipta Rússa af kosningunum 2016 og voru 34 ákærðir, þar af sex úr herbúðum Trump.

„Það var fullt af fólki þarna sem hafa gert nokkra mjög mjög illa hluti, mjög slæma hluti“ sagði forsetinn meðal annars á fundinum. „Ég myndi segja sviksamlega hluti, gegn landinu okkar. Þetta fólk verður klárlega skoðað, ég hef skoðað það í langan tíma,“ sagði Trump og sagði marga hafa logið að þinginu.

Forsetinn nefndi þó engin nöfn. „Þetta var fölsuð framvinda. Þetta var hræðilegt. Við getum aldrei látið þetta gerast við annan forseta aftur, ég get sagt þér það. Ég segi það mjög sterklega.“