Tilvik hafa komið upp við brottflutning erlendra ríkisborgara þar sem gefa hefur þurft róandi lyf.

Þetta kemur fram í svari Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata.

Samkvæmt svari ráðherra hefur þetta verið gert í þeim tilgangi að viðkomandi einstaklingur skaði hvorki sjálfan sig né aðra. Er það þá heilbrigðisstarfsfólk sem tekur ákvörðun um lyfjagjöfina og framkvæmir hana.

Í svarinu frá dómsmálaráðherra kemur einnig fram að erlendum ríkisborgurum hafi ekki verið gefin lyf gegn vilja sínum í þeim tilgangi að auðvelda brottvísunina, það er að segja til að gera viðkomandi meðfærilegan í flutningnum.

Þá segir í svarinu að þegar róandi lyf hafi verið gefin sé framkvæmdinni frestað þar til læknir meti það svo að óhætt sé að flytja viðkomandi.

Uppfært: Fyrirsögn var leiðrétt klukkan 9:12