Kristín Bjarnadóttir hjúkrunarfræðingur, sem mjög hefur látið til sín taka vegna kynferðisofbeldis gegn konum, segir að Kveiksþáttur gærkvöldsins hafi verið illa unninn.

„Það vantaði alla forvinnu og allt jafnvægi, þarna er talað við mann sem er vitað að er gerandi og honum gefið frítt spil. Það verður til þess að þjóðin stekkur á vagninn með að vorkenna manninum sem er mannlegt,“ segir Kristín.

„En þarna er bara hálf sagan sögð,“ bætir hún við. „Það kom í ljós eftir þáttinn að ungar konur, miklu yngri en hann, stigu fram og sögðust hafa fengið fleiri typpamyndir.“

Kristín segir að dagskrárgerð sem þessi sendi út mjög vond skilaboð. „“Það er gefið út skotleyfi á konur sem þolendur.“

Spurð hvort það sé umhugsunarefni að leikarinn, Þórir Sæmundsson eigi ekki kost á lífsbjörgum, segir Kristín að löngum hafi það verið á hinn veginn.

„Það er nú bara þannig að margar konur hafa hrakist frá vinnu vegna þess eins að það var brotið á þeim. Hér hefur verið stöðug útskúfunarmenning á margan hátt, en nú bregður okkur við að heyra í gerendum.“

„Hann segir ekki alla söguna. Maður sem er að senda yngri konum typpamyndir á einmitt ekki að sinna fötluðum, það er mjög gott að hann sinni ekki fötluðum, það verður að vera heil brú í þessu öllu saman.“

Kristín telur að eini tilgangur Þóris hafi verið að fara í viðtalið til að sýnast saklausari en hann er. En sá tími sé liðinn þar sem hægt sé að þagga niður í konum.

Augljóst sé aftur á móti að leikarinn þurfi að fá viðeigandi hjálp og hann þurfi að sýna auðmýkt.