Sam­kvæmt nýrri skýrslu Vörðu eiga 80 prósent ör­yrkja erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman. Frétta­blaðið ræddi við þrjár konur í þessari stöðu. Þær segja meðal annars sárt að eiga ekki mat fyrir börnin sín og að þær neiti sér um fé­lags­líf.
Þrjár konur, sem eru ör­yrkjar, segja að þrátt fyrir erfiðar að­stæður og skort, þá gefist þær aldrei upp. Það sé ekki í boði. Sam­kvæmt nýrri skýrslu Vörðu, rann­sóknar­stofnunar vinnu­markaðarins, eiga um 80 prósent ör­yrkja erfitt eða mjög erfitt með að ná endum saman.

Sér­stak­lega er í skýrslu Vörðu fjallað um stöðu ein­stæðra for­eldra á meðal ör­yrkja eða fatlaðra og sam­kvæmt niður­stöðum könnunarinnar eiga 58 prósent ein­stæðra for­eldra erfitt með að ná endum saman, 29 prósent ein­stæðra for­eldra voru í van­skilum með leigu eða lán, 67 prósent ein­stæðra for­eldra komust ekki í ár­legt frí, 81 prósent gat ekki mætt ó­væntum gjöldum, 44 prósent gátu ekki staðið undir kostnaði vegna skipu­lagðra tóm­stunda og 52 prósent gátu ekki keypt nauð­syn­legan fatnað á börn sín.

Þær segja sárt að eiga ekki mat fyrir börnin sín en þær geri það sem þurfi eins og að neita sér um heil­brigðis­þjónustu og fé­lags­líf. Þær eiga það allar sam­eigin­legt að glíma við mikinn fjár­skort og eru af­leiðingarnar þær að börnin skortir klæðnað og geta ekki stundað tóm­stundir og þær sjálfar neita sér um læknis­þjónustu og að kaupa nauð­syn­leg lyf.

Myndi vilja geta sinnt heilsu barnsins betur

Helga er einstæður öryrki sem á eina 15 ára dóttir. Hún vill ekki koma fram undir sínu raunverulega nafni en segir að flest sem fram komi í skýrslunni þekki hún vel.

„Ég hef reyndar aldrei verið í vanskilum, samviskan leyfir mér það ekki. En ég hef staðið við allar mínar skuldbindingar og átt þá eftir 40 þúsund krónur til að lifa út mánuðinn,“ segir Helga.

„Það er blákaldur raunveruleikinn, að það er erfitt að láta enda ná saman. Ég get samt alveg sagt að ég hef það ekki svo slæmt því ég á engar neysluskuldir,“ segir Helga en margir sem glíma við fátækt glíma við smálánaskuldir og aðrar neysluskuldir.

Hún segir að hún hafi þurft að neita barninu sínu um tómstundir eða ekki getað keypt nýjasta íþróttagallann.

„Það eru eilífðar fjárhagsáhyggjur af því að þetta er alltaf basl. Þetta er alltaf erfitt. Ég neita mér um klippingu og snyrtiþjónustu og hef sleppt sjúkraþjálfun og að leysa út lyf. Þetta gerir maður svo að barnið geti verið í tómstund. Ég næ aldrei að leggja fyrir og get þar af leiðandi aldrei mætt óvæntum útgjöldum,“ segir Helga sem segir að þessum aðstæðum fylgi mikill kvíði.

Helga fær á mánuði, eftir skatt, 329 þúsund krónur. Inn í því er lífeyririnn, meðlagið og húsnæðisbæturnar. Föst greiðsla húsnæðisleigu og lána er 240 þúsund og þá er ekki talið internet, fjarskiptakostnaður og hússjóður en eftir stendur um 89 þúsund.

Segjum að þvottaefnið kosti eitt þúsund og klósettpappírinn 500 krónur. Þá áttu 3.500 krónur eftir fyrir mat út vikuna. Hvað kaupirðu fyrir það?

Hún segir að reikningsdæmið gangi illa upp þegar það eru kannski 20 þúsund krónur eftir í matarinnkaup út mánuðinn. Hún hafi stundað það að skipta peningunum í umslög fyrir vikurnar en það þurfi ekki meira en að þvottaefnið klárist eða klósettpappírinn til að planið fari úr skorðum.

„Segjum að þvottaefnið kosti eitt þúsund og klósettpappírinn 500 krónur. Þá áttu 3.500 krónur eftir fyrir mat út vikuna. Hvað kaupirðu fyrir það? Þessari stöðu hef ég verið í.“

Hún segir að því fylgi mikill kvíði

Helga segir að hún hafi aldrei efni á því að fara í leikhús, bíó eða á aðra slíka viðburði en fari þó ef að hún fái boðsmiða.

„Það er erfitt að hitta vinkonur á kaffihúsi eða fara með þeim út að borða. Þetta veldur kvíða og svo kemur lygin í kringum það um að ég sé þreytt eða eitthvað slíkt því maður hefur ekki efni á þessum aukakostnaði. Mörgum finnst ekkert mál að borga fimm þúsund á veitingastað fyrir mat og drykk, en fyrir mér er þetta heil vika af mat,“ segir Helga.

Hún segir að hærri örorkulífeyrir mundi að sjálfsögðu hjálpa en svo séu aðrir hlutir eins og niðurgreiðsla sálfræðings sem myndi breyta mjög miklu, bæði fyrir fullorðna og fyrir börn.

„Þér getur liðið illa en börnunum getur líka liðið illa og þú hefur ekki efni á því að fara með þau til sálfræðings. Ég humma þetta af mér, en barnið getur það ekki. Það á allt lífið eftir. Þó það væri ekki nema bara sálfræðiþjónusta barna sem myndi falla undir sjúkratryggingar, þá myndi það breyta miklu.“

„Ég vil að barnið mitt verði vinnufært þegar það á að fara út í lífið, en það verður það ekki þegar foreldri þess er alltaf með fjárhagsáhyggjur og getur ekki leyft sér neitt nema að telja klinkið eða safna dósum.“

Finnst þér þú ekki geta verið foreldrið sem þig langar að vera?

„Nei, ég myndi vilja sinna heilsu barnsins míns betur,“ segir Helga.

Hún segir að hún hafi aldrei trassað tannlæknaþjónustu en önnur þjónusta, eins og sálfræðiþjónustu og sjúkraþjálfun hefur hún neitað sér um.

Hún segir að PEPP hafi hjálpað henni mikið. Að hitta fólk með svipaða reynslu sem geti leiðbeint um það hvernig erghægt að fá þjónustu með afslætti eða hvar er hægt að fá hjálp.

„Félagsráðgjafar eru kannski ekki alltaf inn í þessum úrræðum, hvernig er hægt að fá ódýrara eða afslátt. Í stað þess að segja fólki að sleppa hinu og þessu að gefa þeim hugmynd eða ráð um hvernig er hægt að gera eitthvað á ódýrari máta,“ segir Helga.

Lilly segir að lífið hafi tekið U-beygju þegar hún veiktist.
Fréttablaðið/Valli

Á 30 þúsund til að lifa út mánuðinn

Lilly Aletta varð öryrki þegar hún greindist skyndilega með slæma sykursýki. Hún býr í eigin húsnæði og er að greiða af lánum. Hún er einstæð móðir og á þrjú börn.

„Áður en ég varð öryrki var ég með eigin fyrirtæki, hafði safnað mér fyrir útborgun fyrir íbúð, hafði menntað mig og hafði engar fjárhagsáhyggjur. Allt í einu varð ég öryrki en það var alls ekki mín áætlun fyrir líf mitt, eða barnanna minna. Lífið tók allt aðra stefnu en ég hafði ætlað mér.“

„Húsnæði er ekki ódýrt í dag. Með hússjóði og rafmagni og öllu sem fylgir á ég um 130 þúsund til að lifa út mánuðinn. Það er allt sem ég fæ frá Tryggingastofnun, barnalífeyrir og meðlag með þremur börnum. Ég fékk frístundastyrk fyrir annan son minn í september, en borgaði fullt gjald fyrir þann yngri út árið og á núna 30 þúsund krónur til að lifa út mánuðinn.“

Lilly segir að hún nýti ýmsar leiðir til að lifa af. Hún hafi sem dæmi stundað það að fá gefins hluti hjá fólki og selt þá svo.

„Ég hef fengið gefins dót og þegar ég er komin með slatta þá leigi ég bás í Barnaloppunni og fæ kannski 50 eða 60 þúsund krónur út úr því. Ég veit ég er að svindla, að taka gefins hluti, en ég hugsa þetta líka þannig að ég þarf á þessu að halda. Að vera í þessari stöðu með þrjú lítil börn þá er ég ekkert að vorkenna mér, ég reyni alltaf að gera betur.“

Lilly segir að hún fái góðan stuðning hjá fjölskyldunni sinni og segir að án þeirra gæti hún ekki lifað af. Bara sem dæmi hafi faðir hennar aðstoðað hana við tannlæknakostnað í þessari viku.

Ég hef fengið gefins dót og þegar ég er komin með slatta þá leigi ég bás í Barnaloppunni og fæ kannski 50 eða 60 þúsund krónur út úr því. Ég veit ég er að svindla, að taka gefins hluti, en ég hugsa þetta líka þannig að ég þarf á þessu að halda.

„Ég veit ekki hvar ég væri, matarlega séð, án mömmu og pabba,“ segir hún og að hún fái líka stuðning frá Hjálparstarfi kirkjunnar og öðrum samtökum.

Lilly segir að hún kaupi aldrei ný föt á börnin sín, það komi allt úr Barnaloppunni eða álíka verslunum, en þar finnist henni verðið stundum líka of hátt.

„Fimm þúsund fyrir notaða kuldaskó finnst mér bara of mikið,“ segir Lilly.

Hún segir að þetta snúist alls ekki um að eiga fyrir utanlandsferð á hverju ári eða nýrri Playstation tölvu.

„Þetta snýst um að geta haldið afmæli fyrir barnið mitt og að geta gefið því afmælisgjöf. Þegar það er einhver svona aukakostnaður þá er ekki til peningur því maður á aldrei afgang. Maður lifir alltaf mánuði til mánaðar og meira að segja er peningurinn oft búinn áður en mánuðinum lýkur.“

Hún telur að það myndi hjálpa mikið að hækka lífeyri en að það skipti líka máli að taka mið af því hversu mörg börn eru á framfæri og hversu veikt fólk er.

„Það mætti alveg gera aðeins betur og horfa til hvers konar veikindi fólk er að glíma við og hvað það þarf að eyða í veikindin í hverjum mánuði. Frá því að Covid byrjaði hefur matarkarfan hækkað um átta til tíu þúsund á viku en á sama tíma hafa launin ekki hækkað neitt.“

Þegar ég á ekkert fyrir börnin mín að borða, það er mjög sárt. Það er allt í klessu hjá mér en maður reynir alltaf að láta þetta ganga, það þýðir ekkert annað. Það þýðir ekki að gefast upp

Búin að venjast því að eiga ekki fyrir öllu

Vala á fjögur börn. Hún er einstæð og hefur búið á Íslandi í 26 ár. Hún segir að hún hafi oft hugsað um að fara frá Íslandi en börnin hennar vilji ekki sjá það, þau vilji vera hér.

„Ég er löngu búin að venjast því að eiga ekki fyrir öllu, að eiga varla fyrir mat út mánuðinn.“

Vala segir að hún einu skiptin sem hún eigi fyrir öllu út mánuðinn sé þegar hún fær barnabætur.

„Annars er það ekki hægt. Engan veginn.“

Vala segist vel þekkja það sem kemur fram í skýrslu Öryrkjabandalagsins. Hún hafi ekki efni á að kaupa ný föt fyrir börnin sín, greiða fyrir sálfræðiaðstoð og núna hafi bíllinn hennar verið bilaður í marga mánuði og því sé hún í strætó.

Vala fær um 387 þúsund útborgað eftir skatt og eftir að hún er búin að borga leigu, frístund, tómstundir og mataráskrift fyrir börnin eru um 35 þúsund eftir fyrir mat og öðrum útgjöldum. Hún segir að utan þess að hækka lífeyri væri gott að finna einhverjar leiðir til að tryggja að einstæðar mæður og öryrkjar eigi alltaf fyrir mat.

„Að eiga alltaf að borða út mánuðinn.“

Þetta hlýtur að valda þér áhyggjum?

„Já, um miðjan mánuðinn. Þegar ég á ekkert fyrir börnin mín að borða, það er mjög sárt. Það er allt í klessu hjá mér en maður reynir alltaf að láta þetta ganga, það þýðir ekkert annað. Það þýðir ekki að gefast upp."