Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, nýsköpunarráðherra, tóku á dögunum á móti fyrstu eintökum nýs 128 síðna tímarits sem Samtök iðnaðarins hafa gefið út um nýsköpun.

Í tilkynningu segir að samtökin vilji með útgáfunni leggja sitt af mörkum til að hvetja til nýsköpunar á öllum sviðum atvinnulífsins. „Með því að styðja við umgjörð og hvata til nýsköpunar í nýjum og rótgrónum fyrirtækjum eflum við samkeppnishæfni Íslands til framtíðar,“ segir jafnframt í tilkynningunni. Í því ljósi hafi samtökin ráðist í útgáfu tímaritsins þar sem fjallað sé um nýsköpun með fjölbreyttum hætti. Vefútgáfu ritsins má finna á vef samtakanna.