Ó­birt Insta­gram færsla sjón­varps­konunnar Caroline Flack leit dagsins ljós í dag fjórum dögum eftir and­lát hennar. Fjöl­skylda Flack vildi koma skila­boðum hennar til skila en þátta­stjórnandanum hafði verið ráð­lagt að halda sig frá sam­fé­lags­miðlum og ræða ekki um á­sakanir í sinn garð.

Í færslunni lýsir hin fer­tuga Flack því hvernig heimi hennar og fram­tíð hafi verið kippt undan henni þegar kærasti hennar á­kærði hana fyrir líkams­á­rás. Flack hafði undan­farnar vikur og mánuði mátt þola ó­­­væga um­­fjöllun í götu­blöðum og á sam­­fé­lags­­miðlum vegna málsins. Hún fannst svo látin í íbúð sinni í norð­austur­hluta London á laugar­­daginn eftir að hafa tekið sitt eigið líf.

Allir fylgdust með heiminum hrynja

„Á innan við 24 tímum var öllum heiminum og fram­tíð minni kippt undan mér og allir veggirnir sem ég hafði byggt í kringum mig hrundu,“ segir Flack í ó­birtu færslunni. „Ég er allt í einu á allt öðru sviði þar sem allir fylgjast með mér.“

Flack tjáði sig einnig um á­sakanirnar í sinn garð og kvöldið sem um­rædd árás átti sér stað. „Ég hef á­vallt tekið á­byrgð á því sem átti sér stað þetta kvöld, jafn­vel á kvöldinu sjálfu. En í sann­leika sagt.. þá var þetta slys,“ segir þátta­stjórnandinn að lokum.

Margir hafa lagt blóm við dyrnar á fyrrum heimili Flack.
Mynd/Dominic Lipinski

Slúður­miðlar réðu henni bana

Móðir Flack á­kvað að deila orðunum sem dóttur hennar hafði verið meinað að birta í gegnum The Ea­stern Daily Press í morgun. Flack hélt sak­leysi sínu í á­kæru­málinu á­vallt til streitu og greindi frá því síðast­liðinn fimmtu­­­dag að hún kæmi til með að opna sig um á­sakanirnar og sam­band sitt bráð­lega. Réttar­höld vegna málsins hafa enn ekki farið fram.

Margar spurningar hafa vaknað í Bret­landi um tengsl fræga fólksins við sam­­fé­lags­­miðla og götu­blöðin þar í landi í kjöl­far dauða Flack. Breska þjóðin virðist öll sam­einast í þeirri skoðun að and­látið sé þar­lendum götu­blöðum að kenna þar sem Flack hlaut dag­lega harða út­reið.