Skýrsla hins sér­staka sak­sóknara Robert Mueller, um af­skipti Rússa af Banda­ríkja­kosningunum 2016 og tengsl Donald Trump, Banda­ríkja­for­seta, við þau af­skipti, verður gefin út í heild sinni á fimmtu­dag, að því er fram kemur á vef CNN. Tals­maður dóms­mála­ráðu­neytisins er sagður hafa stað­fest þetta.

Demó­kratar hafa farið fram á að skýrslan verði gerð opin­ber frá því í síðasta mánuði en hingað til hafa einungis helstu niður­stöður úr skýrslunni, unnar af dóms­mála­ráð­herranum Willi­am P. Barr, litið dagsins ljós.

Út­gáfa skýrslunnar, sem telur um 400 blað­síður, mun því gefa tölu­vert betri inn­sýn inn í það hvað ná­kvæm­lega átti sér stað í að­draganda kosninga­her­ferðinnar 2016. Donald Trump hefur frá því í síðasta mánuði haldið því fram að skýrslan feli í sér full­komna sakar­upp­gjöf fyrir sig en demó­kratar í full­trúa­deildinni hafa sagt að þeir treysti ekki ein­göngu út­skýringum Barr.

Forsetinn hefur líkt og oft áður gripið til samfélagsmiðilsins Twitter en hann bregst ókvæða við nýjustu fréttum af skýrslunni. Hann segir að skýrslan hafi verið skrifuð af 18 reiðum Demókrötum sem hati sig og styðji Hillary Clinton, og segir hann jafnframt að þeir ættu að einbeita sér að því að rannsaka hver það var sem hafi njósnað um hann í aðdraganda forsetakosninganna 2016.