„Við vorum að ræða að við ætlum að setjast niður og halda áfram samtalinu. Það er ekki mikið meira um það að segja,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknarflokksins, í samtali við Fréttablaðið.
Hann fundaði í stjórnarráðinu eftir hádegi í dag með Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, og Bjarna Benediktssyni, formanni Sjálfstæðisflokksins, um mögulega áframhald á stjórnarsamstarfi flokkanna þriggja.
Sigurður Ingi vildi ekkert gefa upp um óskir Framsóknarflokksins um ráðuneyti. „Það kemur bara í ljós,“ sagði hann og brosti.
Varðandi endurtalninguna þá sé staðan dapurleg, en það hafi ekki áhrif á viðræður flokkanna. Viðræðurnar gætu tekið einhvern tíma. „Við gerum okkur grein fyrir því að þetta má ekki vera endalaust þannig að einhvern óvissa gæti skapast en við þurfum tíma til að vanda okkur. Þetta er nýtt kjörtímabil og ný ríkisstjórn þó það séu sömu flokkar sem hafa starfað saman vel á síðasta kjörtímabili.“
Framkvæmd þurfi að vera hafin yfir vafa
Katrín sagði að þau hefðu aðeins farið yfir stöðuna eftir kosningar. „Niðurstaðan var sú að við ætlum að hittast aftur á morgun. Við ætlum að nýta okkur vikuna til að fara yfir stóru línurnar.“
Katrín sagði mikilvægt að öll framkvæmd kosninga þurfi að vera hafin yfir vafa. „Þess vegna er mikilvægt að komist til botns í þessu hvernig framkvæmdinni var háttað í Norðvesturkjördæmi. Suðurkjördæmi hefur ákveðið að telja aftur og ég tel það góða ákvörðun hjá yfirkjörstjórninni til að tryggja að það leiki enginn vafi á úrslitunum.“
Ótímabært að tjá sig
Bjarni segir að þau hafi farið yfir breiðu línurnar yfir það sem muni skipta máli á næsta kjörtímabili. „Við þurfum bara nokkra fundi í þetta.“ Varðandi hvort breytingar yrðu gerðar á ráðherrastólum segir Bjarni ólíklegt að ráðherraskipan verði sú sama.
Bjarni segir stöðuna sem upp er komin í tengslum við endurtalningu vera óheppilega. „Það sjá það allir og vonandi finnst góð lausn á málinu.“
Á meðan málið sé í þessum farvegi sé hann eins og hver annar, fylgist með því hvað þeir sem beri ábyrgð á framkvæmd kosninganna hafi um málið að segja. „Við skulum bara leyfa þeim að vinna sína vinnu, ég ætla ekkert að grípa fram yfir hendurnar á þeim. Mér þætti það mjög óeðlilegt,“ sagði Bjarni.
Þá vildi hann ekki tjá sig um lögmæti endurtalningar í Norðvesturkjördæmi. „Ég ætla að bíða eftir að kjörstjórn tjái sig um það. Þetta er í formlegum farvegi og ég ætla að bíða eftir því að heyra hvað þeir sem beri ábyrgð á framkvæmdinni segja.“ Bjarni segir í raun ekkert óeðlilegt við það að það þurfi að endurtelja atkvæði og það geti haft afleiðingar. „En að fara fella einhverja dóma á þessu stigi finnst mér ótímabært. Þeir sem bera formlega ábyrgð á framkvæmd kosningarinnar eiga eftir að tjá sig.“
„Ef í ljós kemur afgerandi niðurstaða að lögum hafi ekki verið fylgt og það hafi einhverjar afleiðingar þá skal ég svo sannarlega tjá mig,“ segir Bjarni.

Nýr þingflokkur Sjálfstæðisflokksins fundaði í þinghúsinu í dag. Fréttablaðið náði tali af nokkrum þingmönnum flokksins eftir fundinn og mátti vel greina þeirra á meðal að gott hljóð væri almennt í þingflokknum og að formaður þeirra hefði fullt umboð til að skoða áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf með Vinstri hreyfingunni grænu framboði og Framsóknarflokknum.
Guðlaugur ánægður í sínu ráðuneyti
„Það er prýðilegt. Núna taka við næstu hlutir að mynda nýja ríkisstjórn og það sjá allir hvernig staðan er í því,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, eftir fundinn.
Hann sagði að Bjarni hafi fullt umboð þingflokksins til að ræða við formenn Framsóknarflokksins og Vinstri grænna um áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf.
Spurður um orð ákveðinna þingmanna í kosningabaráttunni og efasemdir þeirra um áframhaldandi ríkisstjórnarsamstarf sagði Guðlaugaur það ekkert nýtt að flokkanir, VG og Sjálfstæðisflokkur væru ólíkir en að nú væri nýtt kjörtímabil og það þyrfti að koma í ljós hver
„Þetta eru ólíkir flokkar, ólíkar áherslur. Það hefur gengið vel að vinna saman við erfiðar aðstæður og skilað góðum árangri. Það er fullt traust til formanns Sjálfstæðisflokksins til að fara yfir þau mál við oddvita ríkisstjórnarinnar,“ sagði Guðlaugur Þór.
Hann sagði að honum hefðu ekki verið settir neinir afarkostir og að þau vildu auðvitað að þeirra formaður leiði næstu ríkisstjórn en að það þyrfti að líta til fleiri þátta.
Spurður hvort að hann vilji vera áfram í utanríkisráðuneytinu sagðist hann kunna vel við sig þar og vildi vel vera þar áfram. Hins vegar væru fjölmargir aðrir málaflokkar í samfélaginu spennandi og hann gæti vel hugsað sér að takast á við önnur verkefni.

Verkefnin og málefnin sem skipta máli
„Það er núna i hans höndum og þau taka þetta samtal. Við höfðum öll sagt að það væri eðlilegt að byrja á því að tala saman ef við fengjum til þess umboð og við fengum til þess umboð en við erum ekki komin lengra en það,“ sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, iðnaðar-, nýsköpunar- og ferðamálaráðherra eftir þingflokksfund.
Hún sagði að flokkurinn leggi áherslu á verkefnin og málefnin og það sé það sem skipti máli.
„Við erum ekki þekkt fyrir einhverja afarkosti á mánudegi eftir kosningar en við fundum hvaða mál brunnu á fólki,“ sagði Þórdís Kolbrún og nefndi heilbrigðismál, loftslagsmál, nýtingu auðlinda og orkuskipti.
Spurð hún vilji vera áfram í ráðuneyti ferðamála-, nýsköpunar og iðnaðar sagði hún að verkefnin þar væru afskaplega skemmtileg og hún gæti vel hugsað sér að halda áfram með þau en hún væri líka meira en tilbúin að taka að sér önnur verkefni.

Ásmundur væri til í nefndarformennsku
Ásmundur Friðriksson sagði hljóðið gott eftir fyrsta þingflokksfundinn sem nýr þingflokkur Sjálfstæðisflokkins hélt á þingi í dag.
Ásmundur sagðist ekki búast við ráðherraembætti fari Sjálfstæðisflokkurinn aftur í ríkisstjórn en að hann telji komið að sér að stýra þingnefnd.
„Við erum búin að fá nýja félaga,“ sagði Ásmundur að loknum fundi og að í huganum hafi þingflokkurinn kvatt þá þingmenn sem ekki lengur eru á þingi.
„Við erum að horfa til framtíðar með mikilli bjartsýni.“
Spurður hvernig honum lítist á að halda núverandi ríkisstjórnarsamstarfi áfram sagði hann að Bjarni fara inn í þær viðræður og að hann miðli því svo áfram til þeirra.
„Hann hafði fullt umboð til að segja það sem hann sagði fyrir kosningar og ég held að það standi við allt. En hann svarar auðvitað fyrir það sem kemur út úr því,“ segir Ásmundur.
Myndirðu sjá fyrir þér að verða ráðherra?
„Nei, ég á ekki von á því.
Formaður í nefnd?
„Jájá, það er algerlega komið að mér í því.“