Ofurfyrirsætan og matgæðingurinn Chrissy Teigen og eiginmaður hennar, tónlistarmaðurinn John Legent, hafa gefið 72 þúsund Bandaríkjadali fyrir hvern fjölskyldumeðlim til mannréttindasamtakanna ACLU.

Þetta gera þau í tilefni 72 ára afmæli Donalds Trumps Bandaríkjaforseta en Teigen hefur gagnrýnt Trump harðlega í gegnum tíðina og skotið að honum föstum skotum á samfélagsmiðlinum Twitter í fjölda ára

Rúmar 30 milljónir til að aðstoða flóttafólk

72 þúsund Bandaríkjadalir eru rúmar 7.6 milljónir íslenskra króna og gáfu hjónin því rúmar 30 milljónir í heildina, en Teigen og Legent eiga tvö börn.

Teigen tilkynnti þetta á samfélagsmiðlum fyrr í dag þar sem hún hvetur aðra til að gera slíkt hið sama og segir samtökin skuldbundin því að berjast fyrir hinum ýmsu mannréttindum. „John og ég erum ævareið að sjá og heyra hryllingssögurnar af fjölskyldum innflytjenda sem leita hælis í Bandaríkjunum og eru rifnar í sundur vegna ómannúðlegrar stjórnar Trumps,“ ritar Teigen.

Segir aðgerðirnar grimmar

Hryllingsögurnar sem Teigen vísar eru sögur sem farið hafa hátt síðustu vikur vestanhafs um fjölskyldur sem eru aðskildar á á landamærum Bandaríkjanna þegar þær leita hælis þar í landi. Á heimasíðu mannréttindasamtakannasegir meðal annars frá móður og sjö ára dóttur sem hafa verið aðskildar í fjóra mánuði, en þær flúðu frá Kongó til Bandaríkjanna í leit að öryggi. Mannréttindasamtökin hafa kært aðskilnaðinn, sem er ekki einsdæmi. 

Í færslu sinni ritar Teigen einnig að þessar aðgerðir séu grimmar og fari gegn öllu því sem Bandaríkin standi fyrir.

Kastaði Teigen út en dæmdur til að hleypa henni aftur inn

Teigen og Trump hafa eldað grátt silfur í lengri tíma. Í fyrra fékk forsetinn nóg af föstum skotum ofurfyrirsætunnar, sem hefur „trollað“ forsetann í fjölda ára, og blokkaði hana.

Teigen greindi sjálf frá þessu á Twitter og sagði: „Eftir níu ár af hatri gagnvart þessum manni voru það þessi orð; „lol engum líkar vel við þig“, sem var síðasta stráið.“

Trump virðist þó hafa verið aðeins of fljótur á sér að læsa Teigen úti þar sem dómari í Manhattan dæmdi fyrr á þessu ári að aðgangur Trumps væri opinber og það væri því brot á bandarísku stjórnarskránni að læsa fólk úti af reikningnum.

Teigen hefur því verið hleypt inn að nýju, sem hún fagnaði með tvíti þar sem hún sagði einfaldlega „jæja, jæja, jæja við hittumst á ný.“