Allir karlmenn í forgangshópi sjö hafa nú verið bólusettir gegn Covid-19. Þeim hópi tilheyrir fólk með undirliggjandi sjúkdóma og þeir sem eru í sérstökum áhættuhópi samkvæmt reglugerð um Covid-19 bólusetningar. Hópurinn telur tugþúsundir einstaklinga.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, segir að enn eigi eftir að bólusetja hóp kvenna sem tilheyri forgangshópi sjö, ástæðan fyrir því að hraðar gangi að bólusetja karlana sé sú að konur yngri en 55 ára fái ekki bóluefni frá AstraZeneca.

Þá segir Ragnheiður að bólusetningar hafi gengið vel í vikunni, nú sé að líða undir lok stærsta vika bólusetninga hér á landi, en í vikunni hafa yfir 40 þúsund einstaklingar verið bólusettir. Notað hefur verið bóluefni frá Pfizer, Moderna, Jansen og AstraZeneca. Forgangshópar sjö og átta fengu bólusetningu ásamt því að bólusett hefur verið eftir aldursröð. Í forgangshópi átta eru meðal annars kennarar og leikskólakennarar.

„Þetta hefur gengið vel og við komumst langt niður í aldur með karlmennina, alveg niður í ’74 árganginn,“ segir Ragnheiður.

Fréttablaðið fékk fjölda ábendinga í gær frá einstaklingum sem boðaðir voru í bólusetningu á fimmtudag með bóluefni frá Astra­Zeneca en töldu sig ekki tilheyra forgangshópi sjö. Meðal þeirra voru þrír karlmenn á fertugsaldri. Þeir þáðu allir bólusetninguna en voru ekki meðvitaðir um að þeir væru í forgangshópi sjö. Þeir eiga það sameiginlegt að vera á sama aldri og hafa glímt við kvíða og þunglyndi í fortíðinni. Þeim er þó batnað af sjúkdómnum og eru ekki lengur á lyfjum.

Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Aðspurð segir Ragnheiður það hafa komið upp að fólk geri sér ekki grein fyrir því að það sé í forgangi í bólusetningu. Forgangshóparnir séu teknir saman út frá skráningu sjúkdóma í sjúkraskrá og lyfjagagnagrunni. Þá séu geðraskanir á lista yfir þá sjúkdóma sem teljist sem áhættuþættir, þar undir falli kvíði og þunglyndi.

Í leiðbeiningum fyrir einstaklinga með áhættuþætti fyrir alvarlegri Covid-19 sýkingu á vef Embættis landlæknis segir að alvarlegar geðraskanir falli undir áhættuþætti. Þar segir meðal annars að einstaklingar sem glími við alvarlega geðsjúkdóma „eins og alvarlegt þunglyndi, geðklofa og geðhvörf eru taldir líklegri en aðrir til að smitast af COVID-19 samkvæmt nýlegum rannsóknum.“

Þeir einstaklingar sæki meðal annars seinna heilbrigðisþjónustu, séu líklegri til að reykja og neyta áfengis og séu oftar í ofþyngd. Þar segir einnig að einstaklingar með alvarlegar geðraskanir séu „taldir í áhættu á alvarlegri veikindum af völdum Covid-19. Þeir eru líklegri til að leggjast inn á sjúkrahús og dánartíðni meðal þeirra er hærri.“

Á vef Stjórnarráðsins birtist undir lok dags í gær tilkynning sem segir að sóttvarnarlæknir hafi ákveðið að bólusetja tilviljanakennt innan hvers forgangshóps í stað þess að boða eftir aldri. Segir að þetta sé meðal annars með hliðsjón af niðurstöðum úr líkani Íslenskrar erfðagreiningar.