Þrír geðlæknar, sem greindu frá mati sínu á geðrænu ástandi Mareks Moszczynski, bar ekki saman um hvers konar ráðstöfunum hann eigi að sæta verði hann dæmdur sekur fyrir þrefalt manndráp, bruna og tilraun til manndráps með íkveikju.

Á þriðja degi aðalmeðferðar í Bræðraborgarstígsmálinu var rætt við geðlækna um ástand hans fyrir og eftir brunann. Voru læknarnir allir sammála um að Marek hefði að öllum líkindum ekki gert upp veikindi sín. Hann hafi verið í geðrofi þennan dag, líklega „triggerað“, eins og geðlæknarnir orðuðu það, af fregnum um að hann gæti mögulega verið dauðvona, sé líklegast með geðhvörf og verið í maníu, en sé hvorki hættulegur sjálfum sér né öðrum í dag. Einstaklingar sem fara í óráð, líkt og Marek gerði daginn sem húsið brann, eru líklegir til að fara óráð aftur að mati geðlæknanna.

Ekki hægt að dæma hann í fangelsi

„Ef niðurstaðan er sú að hann hafi gert það sem honum er gefið að sök og er metinn ósakhæfur, telur þú að ástand hans sé þannig að hann sæti einhverjum öryggisráðstöfunum?“ spurði sækjandinn, Kolbrún Benediktsdóttir.

Fyrsti geðlæknirinn sem gaf skýrslu, tók sjálfur nokkur viðtöl við Marek í kjölfar handtöku hans þann 25. júní 2020. Hann taldi Marek ekki vera það veikan í dag að hann þyrfti á gæslu að halda.

„Nú veit ég ekki hvort hann verði sekur fundinn en þá þarf hann í minnsta kosti að vera hjá heimilislækni,“ sagði geðlæknirinn og taldi ekki viðeigandi að dæma hann í fangelsi eða á geðdeild þar sem þetta væri í raun ein stök geðrofssaga.

„Ef hann er sekur en ósakhæfur, þá getum við ekki sett viðkomandi í fangelsi eða geðdeild til að fyrirbyggja eitthvað sem gæti gerst eftir fimm ár eða fimmtán ár. Hann gæti verið gjörsamlega eðlilegur um árabil, en það er rétt að hann sé undir eftirliti geðlæknis og einhver í kringum hann geti upplýst geðlækni ef það verða skyndilegar breytingar á hegðun hans.“

Þarf að vera undir eftirliti

Annar geðlæknir sem sá um taugasálfræðilegt mat og yfirmat í október, taldi réttast að vista Marek á réttargeðdeild. Þá væri mikilvægt að hafa hann undir réttu eftirliti þar sem hann gæti gert þetta aftur.

„Helst á réttargeðdeild þar sem hægt er að fylgjast með hans þróun þessarar einkenna, minnka lyfjaskammtinn því hann er á háum skammti af geðrofslyfjum og það þarf að meta á þeim tíma hvernig einkenni hans þróast.“

Þriðji geðlæknirinn sagði eðlilegast að koma honum í hendur fagaðila til að meta þessa þætti. Það væri hætta á alvarlegum einkennum sem gætu haft stórvægilegar afleiðingar.

„Ég held að það sé best gert á einhverri deild eins og réttargeðdeild, hversu lengi verður að meta. Eins og hann er núna og hefur verið undanfarið stafar engin hætta af honum en maður veit ekki hvað gerist á næstu vikum ef ekki er fylgst með honum,“ sagði sá þriðji. Ítrekaði hann alvarleika veikinda hans og sagði þetta með alvarlegustu tilvikum af maníu sem hann hafði séð.