Landssamtökin Geðhjálp lýsa yfir áhyggjum vegna framkominna niðurskurðartillagna borgarstjórnar er snúa að velferðarúrræðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá samtökunum en þar er sérstaklega talað um fyrirhugaða lokun Vinjar en það er athvarf fyrir fólk sem býr við geðrænar áskoranir.

Tekið er fram í ályktun Geðhjálpar að borgin átti ekki samtal við Geðhjálp fyrir lokun eins og hafði verið lagt til í tillögu meirihluta borgarstjórnar að yrði gert.

„Boðaðar tillögur virðast hafa verið unnar með hraði og án samtals eða samráðs við hagaðila,“ segir í ályktuninni og að sú erfiða staða sem er í mörgum sveitarfélögum hafi bitnað á einstaklingum sem eigi rétt á þjónustu hjá þeim.

„ Það eru því talsverð vonbrigði að niðurstaða fjárhagsáætlunar sé niðurskurður á annars viðkvæmu velferðarkerfi sveitarfélaganna.“

Geðhjálp hefur um árabil bent á að geðheilbrigðiskerfið á Íslandi er vanfjármagnað en samkvæmt nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar eru framlög til málaflokksins um fimm prósent af öllum framlögum til geðheilbrigðismála. Á sama tíma er áætlað umfang geðheilbrigðismála af heildinni í kringum 25 prósent. Geðhjálp bendir auk þess að stór hluti þessa fjármagns fer í meðferð og endurhæfingu en vill að meira sé sett í forvarnir.

„Nærþjónustan er á hendi sveitarfélaganna og því hefur boðaður niðurskurður nú í för með sér minna fjármagn í forvarnir og heilsueflingu. Landssamtökin Geðhjálp skora á Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög að hafa það í huga að niðurskurður á heilsueflingu og forvörnum á næsta ári kann að hafa í för með sér aukin vanda og mun meiri kostnað inn í framtíðina.“