Guðrún Ýr söngkona er betur þekkt sem GDRN. Hún kom fram á sjónarsviðið fyrir um tæplega tveimur árum síðan með laginu Ein og gaf út sína fyrstu plötu, GDRN – Hvað ef, fyrr á árinu. 

Plata Guðrúnar sem hún vann í samstarfi við tvíeykið Ra:tio er ein af sex sem hlaut Kraumsverðlaunin í ár. 

Á Spotify má sjá að mánaðarlega hlusta nærri 25 þúsund manns á plötuna hennar. Lag sem hún vann í samstarfi við Flóna hefur verið spilað oftar en 500 þúsund sinnum. 

Frá því að platan kom út hefur Guðrún verið á fullu að kynna plötuna. Hún hefur spilað á tónlistarhátíðum og minni og stærri tónleikum. Nú síðast á Nova uppklapp tónleikum. 

Guðrún segir, í samtali við Fréttablaðið, að hún sé rétt að byrja. 

Byrjaði að gera eigin tónlist í MR

Guðrún er 22 ára og er uppalin í Mosfellsbæ. Allt frá unga aldri hefur hún verið í tónlist.

„Ég hef alltaf verið mikið í tónlist alla tíð. Ég byrjaði í fiðlunámi í klassík og var í því í ellefu ár. Svo færði ég mig svo yfir í jazzsöng og píanó í FÍH. Í millitíðinni var ég í Menntaskólanum í Reykjavík og hafði voða háleitar hugmyndir um að fara í læknisfræði, svo fattaði ég bara að það væri kannski ekki alveg það sem ég vildi, en kannski einn daginn. Plan B,” segir Guðrún og hlær.

Guðrún segir að hún hafi í raun ekki byrjað að gera sína eigin tónlist fyrr en á síðasta árinu í Menntaskólanum í Reykjavík, MR.

„Þá kom til mín strákur sem heitir Teitur. Hann nefndi við mig fyrir Júbílantaballið að hann væri að búa til tónlist með vini sínum og vildi fá að vita hvort ég vildi vera með,“ segir Guðrún.

Teitur og vinur hans höfðu heyrt Guðrúnu syngja í  söngkeppni MR og síðar í söngkeppni framhaldsskólanna með Karó árið 2015, þar sem Karó lenti í fyrsta sæti.  

Þeim leist svo vel á hana að þeir ákváðu að athuga hvort hún hefði áhuga á að vinna með þeim. Guðrún ákvað að þiggja boðið.

Hún segir að til að byrja með hafi lögin þeirra eflaust ekki verið þau bestu en svo hafi þau loks endað á lagi sem þau voru ánægð með og ákváðu að gefa það út. Það var lagið Ein.

„Það var fyrsta lagið sem ég gaf út undir mínu nafni. Í kjölfarið fór allt að rúlla. Alda Music hafði samband og vildi vita hvort við hefðum meiri tónlist fyrir þau. Við hentum þá saman fleiri lögum og sendum á þá og við tókum þá eiginlega bara svo lítinn sjens, sem var gott fyrir mig og fyrir þau. Síðan þá er þetta búið að vera eitthvað ferli þar sem við hittumst í kjallaranum hjá Teiti í herberginu hans. Við erum með tölvu og mic og plöntur, það er eitthvað „thing“,“ segir Guðrún.

Saga og reynsla bak við hvert lag

Hún segir að síðan þá hafi þau fylgt sömu formúlu. Flest lögin á plötunni eru því unnin af þeim þremur. Guðrúnum Teiti Helga Skúlasyni og Bjarka Sigurðssyni, sem mynda tvíeykið Ra:tio. Guðrún skrifar þó alla textana, utan þeirra sem hún flytur með listamanninum Auði, sem eru skrifuð í samstarfi við hann.

„Ég sem líka laglínur og hef mikla skoðun á þessu öllu saman. En textarnir eru allir frá mér, nema lögin sem eru samin með Auðunni, þá vinnum við saman. Ég kannski legg niður hljóma og hann er með gítarinn og bassann. Þá er pínu flétta í gangi,“ segir Guðrún

En hvaðan koma lögin?

„Þau eru voðalega dramatísk mörg.,Alltaf ástarsorgir eða hrifning eða eitthvað slíkt. Allt tilfinningalífið. Það nær oft vel til fólks og það tengja allir við það,“ segir Guðrún. 

Hún segir að bak við hvert lag sé einhver reynsla og saga.

„Þetta er allt mjög persónulegt, allt einhver reynsla þarna bak við og einhver saga. Það hafa komið til mín tækifæri til að vinna með einhverjum sem er að gera svona djammlög en ég get ekki sungið um eitthvað sem ég er ekki. Ég er aldrei að fara að syngja vel um það hvernig ég djamma, því ég er ekkert góður „djammari“,“ segir Guðrún.

Unnið með fjölmörgum listamönnum

Guðrún hefur unnið með fjölmörgum listamönnum eins og til dæmis Loga Pedro, fyrrnefndum Auði og Flóna. Flóna hefur hún þekkt í nærri fjögur ár. Hún segir að þau hafi lengi stefnt að því að gera eitthvað saman en hafi bæði vitað að lagið yrði að vera alveg frábært. Það var svo ekki fyrr en Guðrún var að vinna að laginu Lætur mig sem henni dettur í hug að fá hann með.

„Við vorum búin að taka upp fyrsta versið og viðlagið og þá vantaði miðjukaflann. Mér datt þá í hug að Flóni gæti passað þar inn. Við sendum lagið á hann og spurðum hvort hann vildi vera með. Það leið mjög stuttur tími, það var eflaust bara sama kvöld sem hann stökk upp í stúdíó og tók upp sinn kafla. Það var bara tilbúið á einum degi nánast. Svo mixaði Arnar Ingi það og setti smá fútt í kaflann hans Flóna. Það var virkilega gaman,“ segir Guðrún.

Lagið er hægt að heyra hér að neðan. 

Á erfitt með að flytja lagið live 

Guðrún segir að samstarf hennar og Loga Pedro hafi einnig verið mjög gott. Hún segir að Logi hafi haft samband við hana og sagt henni að hann hafi haft áhuga á því að hafa hana með á plötunni hans. Hann hafi sent henni lagið Nóttin. 

„Þetta var svo ótrúlega fallegt lag. Um leið og ég heyrði það var ég farin að finna eitthvað. Mér fannst vanta eitthvað í píanókaflann minn þannig ég settist niður og ætlaði að finna einhverja laglínur og þá fannst mér meira kúl að breyta aðeins hljómaganginum og bassanum og fá smá krydd á partinn minn. Ég fékk svo að taka nýjan píanókafla og sönginn minn upp í stúdíóinu hjá Óla Arnalds. Ég sendi það síðan á Loga og hann sagði bara að þetta væri geðveikt,“ segir Guðrún. 

Hún segir að lagið sé ávallt í miklu uppáhaldi og raunar svo miklu að stundum eigi hún erfitt með að syngja það. 

„Ég á alltaf í smá vandræðum með að syngja þetta live því mér finnst þetta svo bilaðslega fallegt. Byggist alltaf smá stress upp í mér og ég vil ekki klúðra því,“ segir Guðrún. 

Hefur puttana í öllu sem hún gerir 

Guðrún hefur puttana í því sem hún gerir og segir að hún geti varla heyrt lag í útvarpinu án þess að radda það eða bæta einhverju við. 

„Það er mikið tónlistareðli í mér, allt frá því ég var lítil.“ 

Guðrún segir að það sé erfitt að finna eitt nafn á tónlistina sem hún er að búa til en segir það einhvers konar bland af poppi, jazzi og hip hop-i. 

„Það kemur einhver skemmtileg blanda, sem ég bara er ekki alveg viss hvernig er best að útskýra. Einhver svona poppaður jazz,” segir Guðrún 

Ætlaðirðu þér alltaf í svona tónlist? 

„Alls ekki, þetta var bara fyndið því Bjarki og Teitur voru að semja mjög hip hop miðaða grunna. Svo kem ég ofan á með í raun allt aðra nálgun og þá verður til þetta skemmtilega púsluspil. Það var í raun aldrei nein pæling hvert ég ætlaði með tónlistina og er ekki enn. Þá get farið hver sem er, í jazzið eða poppið eða hvert sem og mér finnst það í raun skemmtilegt að geta brúað bilið á milli allskonar tónlistarstefna,“ segir Guðrún. 

Guðrún segir að þó því fylgi mögulega einhver áhætta að vera í allskonar tónlist þá finnist henni mikilvægt að hlusta á sjálfa sig. 

„Þú ert þá kannski að taka smá áhættu, en það er líka rosalega mikilvægt í þessum bransa að hlusta á sjálfan sig, því ef þér finnst þetta vera eitthvað sem er flott og kemur algerlega frá þér, þá virkar það. Þá er örugglega einhver annar sem finnur það. Ef þú ætlar að semja eitthvað með einhverja hugsun fyrir fram að fólki muni líka við það, þá hefur þú aldrei raunverulega þessa tilfinningu,“ segir Guðrún.

Vill vera góð fyrirmynd

Guðrún segir að þeir strákar sem hún hefur unnið með hafi alltaf sýnt henni mikinn stuðning, en viðurkennir þó að það væri gott að fá fleiri konur í bransann. Hún segir að það séu nú þegar margar konur að gera mjög flotta hluti og nefnir þar sérstaklega Bríeti og Reykjavíkurdætur. En vegna þess að þær eru talsvert færri sé hún mjög meðvituð um að hún sé eflaust öðrum stúlkum og konum fyrirmynd

„Það var einhver sem sagði við mig að það væri gott að fá mig inn í senuna því ég gæti verið góð fyrirmynd, sem er eitthvað sem ég vil endilega gera. Ef ég get veitt einhverri stelpu út í bæ innblástur til að hugsa „Ef hún getur þetta, þá get ég það” þá verð ég mjög ánægð. Þá er markmiðinu náð,“ segir Guðrún.

„Við vorum að fatta að við erum ekki með neina kvenkyns listamenn, vilt þú koma?“

Guðrún segir að þó henni hafi aldrei beinlínið verið mismunað vegna kyns síns þá hafi hún lent í því að fá skilaboð með stuttum fyrirvara um að það vanti kvenkyns listamenn á viðburði.

„Ég hef ekki beint lent í því að vera mismunað af því ég er stelpa. En ég hef lent í því að það er verið að bóka „gigg“ og ég hef fengið skilaboðin með mjög stuttum fyrirvara fyrir tónleika „Við vorum að fatta að við erum ekki með neina kvenkyns listamenn, vilt þú koma?“ Þá fær maður á tilfinningu að það sé ekki endilega verið að bóka mann út af því að tónlistin er góð, heldur bara því maður er kona. En ég ákvað alveg fyrir fram að láta það ekkert á mig fá að ég er kona. Ef ég er að gera góða hluti þá á það eitt og sér að skipta máli,“ segir Guðrún.

Hún segir mikilvægt að vera á tánum og vera tilbúin að stökkva á réttu tækifærin.

„Ég held að það sé fullt af flottum stelpum að gera tónlist, þær kannski sitja á henni. En þetta er að breytast og ég held að þetta eigi eftir að fara í rétta átt,“ segir Guðrún.

Misvísandi skilaboð frá samfélaginu til stúlkna

Hún veltir því fyrir sér hvort það sem geti dregið úr stelpum sé allskyns misvísandi skilaboð sem þær fá í samfélaginu.

„Ætli þetta séu ekki líka skilaboðin sem er verið að senda strákum og stelpum. Stelpum eru svolítið send skilaboðin að vera ekki í offorsi, þá eru þær kallaðar frekjur. Þannig maður er svolítið að halda aftur af sér og ég man alveg eftir því þegar ég var að byrja. Þetta var mjög erfitt. Ég velti því fyrir mér hvort fólk myndi hlæja að mér, baktala mig eða gera grín að mér? Það er alltaf þetta, þannig ég get alveg trúað því að fullt af stelpum líði eins og mér. Bara það að koma út og taka fyrsta skrefið er erfitt, en um leið og maður gerir það þá sér maður að þetta er ekkert mál,“ segir Guðrún.

Konur eru líka kannski útsettari fyrir öðruvísi gagnrýni en karlmenn?

„Já, allskonar skrítin gagnrýni, eins og útlitið og líkamsbygging og maður hugsar bara að þetta tengist auðvitað ekkert því sem maður er að gera, því maður horfir ekki á tónlist, maður hlustar á tónlist. Ég var alltaf að búast við einhverju, en það eina sem ég hef fengið er meðbyr og stuðningur. Svo passa ég mig bara að ef það er gagnrýni, þá tek ég hana til mín ef þetta er eitthvað sem ég get bætt, en ef þetta er eitthvað sem um hvað ég er ljótt þá bara leyfi ég þeim að halda það og það hefur engin áhrif á það hvernig tónlist ég bý til,“ segir Guðrún.

Á fullu að semja nýja tónlist

Frá því að platan kom út hefur Guðrún verið á fullu að spila á tónleikum og kynna hana. Hún segir að í framtíðinni væri auðvitað gaman að geta farið út að spila á tónlistarhátíðum en segir að, eins og er, sé hún mjög ánægð með stöðuna eins og hún er í dag.

Nú er hún á fullu að semja fyrir næsta verkefni. 

„Þegar maður byrjar, þá getur maður ekki hætt. Þetta er svo skemmtilegt, manni langar bara endalaust að vera saman að elda einhverja tóna“ segir Guðrún að lokum.

Hægt er að hlusta á plötu Guðrúnar, GDRN - Hvað ef, á Spotify.