Hlynur Snorrason, yfirlögregluþjónn á Vestfjörðum, segir brýnt að bæta símasamband á Vestfjörðum. Þeir sem komu að umferðarslysinu í Skötufirði í morgun þurftu að færa sig af slysstað til að komast í símasamband við neyðarlínuna.
Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Þrír voru í bílnum sem fór út af veginum í Skötufirði í Ísafjarðardjúpi á ellefta tímanum í morgun og endaði úti í sjó. Um var að ræða par um þrítugt og ungt barn þeirra. Vegfarendum sem komu að slysinu tókst að koma konunni og barninu á þurrt, en björgunarbátur kom manninum til aðstoðar en hann var uppi á þaki bílsins. Öll voru þau flutt á sjúkrahús í Reykjavík.
„Einn þeirra er við ágæta heilsu en hinir tveir eru enn þá undir læknismeðferð í Reykjavík og við vonum bara það besta,“ sagði Hlynur.
Hlynur segir að áður hafi verið bent á að símasamband sé með stopulum hætti í Ísafjarðardjúpi og á nokkrum stöðum á Vestfjörðum.
„Þarna þurfti fólk að færa sig af slysstað til þess að komast í símasamband. Það er mjög brýnt, öryggisins vegna, að símasamband sé gott á Vestfjörðum eins og alls staðar annars staðar á landinu,“ sagði hann í fréttum Stöðvar 2.
Í tilkynningu sem Lögreglan á Vestfjörðum birti á Facebook-síðu sinni nú undir kvöld kemur fram að tilkynning um slysið hafi borist klukkan 10:16 í morgun.
„Vegfarendurnir tveir, sem komu fyrstir á vettvang, hófu þegar að gera ráðstafanir til að koma fólkinu til bjargar. Þeim bættist liðsauki þegar tveir aðrir vegfarendur komu að,“ segir í tilkynningu lögreglu en eins og að framan greinir komu þeir konunni og barninu úr bifreiðinni og upp á land. „Hófu þessir fjórmenningar endurlífgun. Þriðji aðilinn var fastur upp á þaki bílflaksins.“
Klukkustund eftir að tilkynningin barst voru fyrstu viðbragðsaðilar komnir á vettvang og tóku við endurlífgun og öðrum aðgerðum á vettvangi.
Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar komu á vettvang, með tvo lækna og kafara. Fyrir voru á vettvangi um 50 viðbragðsaðilar, slökkviliðsmenn, sjúkraflutningamenn, björgunarsveitarmenn og lögreglumenn, auk tveggja lækna sem komu frá Ísafirði.
„Björgunarsveitarmenn komu á vettvang á tveimur björgunarskipum, þeim Gísla Jóns frá Ísafirði og Kobba Láka frá Bolungarvík. Ökumanni var bjargað af bílflakinu um borð í annan björgunarbátinn,“ segir í skeyti lögreglu og því bætt við að maðurinn hafi ekki verið alvarlega slasaður en orðinn kaldur.
Kl.10:16 í morgun barst tilkynning til Neyðarlínunnar um umferðarslys í Skötufirði. Tilkynningin barst frá tveimur...
Posted by Lögreglan á Vestfjörðum on Laugardagur, 16. janúar 2021