Stormur sem gengið hefur yfir sunnan og vestanvert landið í dag er nú genginn niður að mestu.

Að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, fór að draga úr útköllum björgunarsveita upp úr klukkan átta í kvöld, en mest var að gera hjá þeim á Hellisheiðinni síðdegis og fram undir kvöld.

„Þetta hefur helst verið á svæðinu frá Snæfellsnesi og austur fyrir fjall, á Eyrarbakka, Hellisheiði og þar í kring,“ segir Davíð Már. Mest hafi verið um útköll í Borgarnesi og helsta foktjónið verið í Borgarfirðinum og þar í kring.

Óvenjumikið af þakplötufoki

„Það var alveg óvenjulega mikið um að þakplötur og klæðingar voru að fjúka,“ segir Davíð og bætir við: „Í einhverjum tilvikum var of vont veður til að björgunarsveitarmenn gætu komist í að hefta þök og þakplötur og í þeim tilvikum þurfti bara að leyfa því að fjúka.“

Í höfuðborginni segir Davíð að töluvert hafi verið um fok af byggingasvæðum en verktakar hafi verið duglegir að mæta sjálfir á vettvang og taka við verkefnum af björgunarsveitum.

Þá segist Davíð ekki hafa upplýsingar um meiðsl á fólki vegna þessa mikla foks.

Lögreglan sá um trampólínin

Björgunarsveitir fengu engin útköll um trampólín í Höfuðborginni í dag, en tvö slík útköll komu á Suðurnesjum.

Töluvert var um fokin trampólín á þéttbýlisstöðum á suðvesturhorninu í dag.
Aðsend mynd

Í dagbókarfærslu lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu frá í dag, kemur þó fram að lögregla hafi fengið einhver útköll vegna foks,, en annars hafi verið frekar rólegt á höfuðborgarsvæðinu.

„Rólegt í dag á höfuðborgarsvæðinu. Hins vegar var nokkuð um tilkynningar vegna veðurs. Þakplötur að fjúka, vinnupallar að detta, trampólín á faraldsfæti svo eitthvað sé talið upp,“ sagði í tilkynningu lögreglu til fjölmiðla seinnipartinn í dag.

„Þakplötur að fjúka, vinnupallar að detta, trampólín á faraldsfæti svo eitthvað sé talið upp.“

Veðrið er nú að mestu gengið niður en spáin gerir ráð fyrir minnkandi sunnanátt og úrkomu í nótt. Á morgun er spáð breytilegri átt yfirleitt á bilinu 5-13 metrum á sekúndu með rigningu eða snjókomu með köflum í flestum landshlutum. Veður fer kólnandi og hiti verður í kringum frostmark á morgun.